138. löggjafarþing — 64. fundur,  29. des. 2009.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008.

286. mál
[11:25]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Frú forseti. Í tilefni þess að greidd eru atkvæði um þetta frumvarp í heild og líka í ljósi þeirrar umræðu sem átt hefur sér stað í þingsal í morgun og ég vona að sem flestir hv. þingmenn hafi haft tækifæri til að hlýða á, vil ég segja að hér samþykkjum við vonandi mjög brýna og þarfa gjörð sem er að mínu viti fyrsta skrefið í átt að hinni siðferðislegu endurreisn sem þarf að eiga sér stað hér á landi. Það þýðir, frú forseti, að Alþingi Íslendinga, kjörið 25. apríl sl., verður að ganga í gegnum þennan hreinsunareld. Aðeins þannig náum við að byggja aftur upp traust þjóðarinnar á þessari stofnun og ég fagna því að hér erum við að ná ágætri samstöðu um að takast á hendur þetta erfiða verk.