138. löggjafarþing — 65. fundur,  30. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[15:12]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Guðbjartur Hannesson) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að vekja athygli á því að það er mjög óeðlilegt að fjárlaganefnd fjalli um þetta mál í miðri 3. umræðu. Aftur á móti var það eindregin krafa frá formönnum stjórnmálaflokkanna að fjárlaganefnd yrði fengin til að fara yfir þau gögn sem bárust í gærkvöldi og við því urðum við, málinu var ekki vísað að nýju til fjárlaganefndar, þannig að það sé alveg á hreinu. Þess vegna gátum við lokið bara vinnunni og sagt: Það er ekkert í þessu. Það hefur enginn gert athugasemd við að það er ekkert nýtt í þessum 25 gögnum sem bárust.

Það er auðvitað erfitt að vinna sólarhringum saman þó að það sé ekki langur tími núna miðað við það sem var í sumar. Ég vorkenni mér ekkert fyrir það, þetta snýst ekkert um það. Það snýst um að gera þjóðinni gagn og það eru allir að reyna að vinna að því. En ég hef það á tilfinningunni eftir þessa umferð að sumir hafi ekkert annað í huga en að reyna að grugga vatnið enn frekar, að sulla í pollinum, og ég ætla ekki að taka þátt í þeim drullupollaleik.