138. löggjafarþing — 65. fundur,  30. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[16:40]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég er í þeirri ólánlegu stöðu að vera búinn að halda mínar tvær ræður og þó að ég lesi þau gögn sem hrynja hérna yfir okkur á hverjum klukkutíma get ég ekkert gert með það, ég get ekki talað um það, frú forseti. Ég var búinn að óska eftir því að hér yrði utandagskrárumræða um þetta mál þannig að ég geti tekið til máls þar eða annars staðar eða þá að veitt yrði afbrigði frá þingsköpum til þess að ég geti rætt um þau mál sem hér hafa komið fram.

Það er t.d. komið fram skeyti um að forseti Alþingis hafi tekið fyrir frekari upplýsingasendingar frá lögmannsstofunni. Mér finnst það dálítið alvarlegt, hann er forseti okkar allra. Það hafa líka komið fram upplýsingar undanfarið í þessum skeytum um samskipti sem er mjög mikilvægt að ræða og fá skýringu á. Ég óska eftir því aftur, frú forseti, að mér verði einhvern veginn gefinn kostur á því að taka þátt í þessari umræðu í ljósi allra þeirra nýju gagna sem borist hafa.