138. löggjafarþing — 65. fundur,  30. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[17:21]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Frú forseti. Þá erum við komin að endalokum þessarar umræðu, eða svo. Síðustu ræðurnar um hina svokallaða Icesave-samninga verða nú haldnar og svo greiðum við atkvæði væntanlega í kvöld ef allt gengur eftir. Og ef fram gengur sem ríkisstjórnarflokkarnir hafa lagt upp með, endar þetta þannig í kvöld að frumvarpið um Icesave-reikningana verður að lögum. Það verður dapurleg stund í sögu þessa þings. Hún er dapurleg vegna þess að í því frumvarpi sem okkur er ætlað að hafa hér til umfjöllunar er sérstaklega kveðið á um að okkur beri ekki skylda til að greiða þessa peninga. Það er sérstaklega kveðið á um það. Þess vegna er það alveg ömurlegt fyrir Alþingi Íslendinga að standa frammi fyrir því að veita ríkisábyrgð við slíkar aðstæður. Og hvaða aðstæður eru það, frú forseti? Að við séum beitt ofbeldi og þvingunum af hálfu vinaþjóða okkar til þess að hafa af okkur fé, því að það er sú staða sem uppi er ef menn horfa á þann texta sem er í frumvarpinu. Það er engin leið að horfa á þetta með öðrum augum.

Ef ríkisstjórnin hefði komið í þingsal með frumvarp sem hefði sagt að það væri þjóðréttarleg skuldbinding af hálfu Íslendinga að standa skil á þessum fjármunum, væri það í lagi. Þá væri það afstaða ríkisstjórnarinnar og við gætum talað um það á þeim grunni, en svo er ekki. Við eigum með öðrum orðum að láta undan kúgunum Breta og Hollendinga. Það verður dapurleg stund ef það verður niðurstaðan.

Það sem er vont í þessu máli öllu er að ríkisstjórninni mistókst það herfilega að ná samstöðu hér á þingi og með þjóðinni um það hvernig við Íslendingar mundum haga vörnum okkar í þessu máli. Við erum öll sammála um að verið er að ganga á rétt okkar og það er óþolandi staða. Á grundvelli þess hefðum við átt að geta náð samstöðu hér á þingi og við hefðum átt að geta náð samstöðu við þjóðina um það hvernig ætti að halda um íslenska hagsmuni.

Þegar horft er til baka er það í raun stórmerkileg tilraun sem gerð var hér á þingi í ágústmánuði þegar Alþingi tók fram fyrir hendurnar á ríkisstjórninni og samþykktir voru þeir fyrirvarar sem gerðir voru við þá samninga sem ríkisstjórnin lagði fyrir þingið. Það eru mistök af hálfu ríkisstjórnarinnar að hafa ekki nýtt það færi sem þá gafst til þess að ná þverpólitískri samstöðu um áframhald þessa máls. Það er með öllu óskiljanlegt hvernig á þessu máli hefur verið haldið.

Það mál sem verið hefur til umræðu í dag um þær upplýsingar sem komið hafa til þingsins, er auðvitað bara lítill hluti af stóru máli. En það er lýsandi fyrir þau vinnubrögð sem viðhöfð hafa verið í þessu máli af hálfu framkvæmdarvaldsins. Það er rétt að hafa það í huga í þeirri umræðu allri að ábyrgðin er ekki embættismannanna. Ábyrgðin liggur alfarið hjá hæstv. ráðherrum þessarar ríkisstjórnar, hjá ríkisstjórninni allri og hjá þeim hv. þingmönnum sem ætla sér að styðja þetta mál. Menn geta ekki horft á það með öðrum hætti.

Við höfum bent á það í þessari umræðu að það eru sterk rök fyrir því að okkur Íslendingum beri ekki lagaleg skylda til þess að standa skil á þessum greiðslum og það sé rangt að veita ríkisábyrgð þegar svo háttar. Undir þetta hefur ríkisstjórnin í sjálfu sér tekið, annars væri það frumvarp sem hér er til umræðu ekki með þeim hætti sem það er.

Frú forseti. Ég trúi því ekki fyrr en ég tek á því að sú verði niðurstaðan að við föllumst á að setja þessar gríðarlegu byrðar á íslensku þjóðina, vegna þess að við búum við hótanir. Það er ekki hægt að afgreiða þetta mál með þeim hætti. Það er ógerningur, það er ómögulegt og okkur er það ekki heimilt. Nú mun reyna á það síðar í kvöld hvaða afstöðu menn munu taka.