138. löggjafarþing — 65. fundur,  30. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[18:26]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Bara þannig að það sé sagt alveg skýrt: Það hefur enginn stjórnarandstöðuþingmaður beðist undan umræðum um þetta mál. Það sem stjórnarandstaðan hefur verið að fara fram á í dag er að fá ráðrúm til þess að skoða þau gögn sem hafa borist. Mér er nákvæmlega sama þótt hv. þm. Björn Valur Gíslason sjái ekkert nýtt í gögnunum, hann hefur ekkert séð neitt nýtt frá því 18. júlí. Þá verð ég að segja að þingmaðurinn er búinn að vera með bundið fyrir augum allan þennan tíma vegna þess að það er fjölmargt nýtt sem hefur komið fram. Og það biðst enginn undan því að ræða þetta. Ég á fimm mínútur eftir af mínum ræðutíma sem ég mun nota hér á eftir. Mér þykir betra, hvort sem þingmaðurinn getur tekið undir það með mér eða ekki, að vita um hvað ég er að tala þegar ég fer í ræðustól. (Gripið fram í.) Þá þarf ég að kynna mér málin sem eru þau gögn sem hafa verið að koma inn á borð okkar þangað til hæstv. forseti Alþingis stöðvaði tölvupóstssendingar. Núna væri hægt að gera hlé (Forseti hringir.) þannig að við gætum klárað að fara yfir þau. Það koma víst ekki frekari gögn, er það?