138. löggjafarþing — 65. fundur,  30. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[18:33]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Sorgin heldur áfram að hlusta á þessi ömurlegu andsvör af hálfu hv. þm. Björns Vals Gíslasonar þar sem hann vænir okkur í stjórnarandstöðunni um að hafa aldrei viljað koma að lausn málsins. Hversu oft höfum við í stjórnarandstöðunni ekki sagt: Þetta mál snýst ekki um ríkisstjórnina, þetta mál snýst ekki um það að fella ríkisstjórnina? Við erum búin að bjóða þeim margoft að við stöndum hér saman, sýnum þverpólitíska samstöðu, og förum saman út og ræðum við Breta og Hollendinga. Af hverju greip ríkisstjórnin ekki tækifærið eftir sumarþingið, eftir hina þverpólitísku sátt sem hér náðist varðandi fyrirvarana, (Gripið fram í.) til þess að fara út og standa saman? (Gripið fram í.) Það var út af kergju og einstrengingshætti Vinstri grænna og Samfylkingar sem svo sannarlega munu bera ábyrgð á þessu klúðri og þessum klyfjum sem verið er að setja á herðar íslenskra barna og á íslenskar fjölskyldur. Síðan kemur hv. þingmaður hér og leyfir sér að segja að engin ný gögn hafi borist í dag. Ég kem að því í seinna andsvari mínu. Ég mun spyrja hann að því (Forseti hringir.) hvenær haldið var á lofti hagsmunum okkar varðandi Heritable banka, hvenær í öllu ferlinu (Forseti hringir.) farið var með það inn í samningaviðræðurnar. Þetta á hv. þingmaður (Forseti hringir.) að vita þar sem hann situr í fjárlaganefnd, (Forseti hringir.) ekki nema hafa verið úti á sjó allan tímann. (Gripið fram í: Heyr, heyr.) (Gripið fram í.)

(Forseti (SVÓ): Forseti biður um hljóð í þingsalinn.)