138. löggjafarþing — 65. fundur,  30. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[21:31]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S):

Forseti. Við samningu þessa frumvarps og vinnslu þess hér á Alþingi höfðu forustumenn ríkisstjórnarflokkanna því miður hvorki neitt samstarf né leituðu eftir samstöðu með stjórnarandstöðunni, hvorki innan Alþingis né utan. Það er miður, ekki síst í ljósi þess hversu mikilvægt það er í þessu máli að forustumenn stjórnmálaflokkanna á Alþingi snúi bökum saman og vinni einhuga að hagsmunum þjóðarinnar þegar að henni er sótt.

Sú tillaga sem hér er lögð fram býður fram þá leið. Með tillögunni leggjum við flutningsmenn hennar til að þessu máli verði vísað frá og úrslitatilraun gerð til að lágmarka skaða þjóðarinnar af þessu erfiða og ömurlega máli.