138. löggjafarþing — 71. fundur,  1. feb. 2010.

dagskrá fundarins.

[15:11]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Frú forseti. Það er óhætt að segja það á ársafmæli þessarar ríkisstjórnar að líkast til hefur Alþingi aldrei í sögu sinni fundað jafnoft og jafnmikið og frá því 1. febrúar í fyrra og þangað til núna (Gripið fram í.) og aldrei jafnmörg og jafnbrýn mál verið rædd og mörg afgreidd. Mörg eru enn í vinnslu og mörg verða afgreidd á næstu vikum og mánuðum.

Dagskráin í dag er með þeim hætti sem hér var rætt og var kynnt fyrir okkur formönnum þingflokka í hádeginu á reglubundnum fundi með forseta. Þar var engin athugasemd gerð við hana af formönnum annarra þingflokka eða formönnum stjórnarflokkanna þannig að þar er vettvangurinn til að ræða og gera athugasemdir fyrir fyrirhugaða dagskrá svo því sé til haga haldið. Í vikunni stendur til að ræða mörg önnur brýn mál. Á morgun eru sjávarútvegsmál á dagskrá og svo eftir því sem vikunni vindur fram. Ég veit ekki betur en að hæstv. efnahagsmálaráðherra sé hér staddur í dag og skráður til svars í óundirbúnum fyrirspurnatíma þannig að það er mjög mikið bráðræði að ákveða það áður en umræðan fer fram í dag (Forseti hringir.) að ekki verði rætt um efnahagsmálin fyrr en sjálfur efnahagsmálaráðherra er hér staddur og til viðtals.