138. löggjafarþing — 71. fundur,  1. feb. 2010.

náttúruverndaráætlun 2009-2013.

200. mál
[17:36]
Horfa

Frsm. meiri hluta umhvn. (Þórunn Sveinbjarnardóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Til grundvallar þeirri tillögu sem hér er til umræðu liggur ítarleg skýrsla Náttúrufræðistofnunar, sem fulltrúar í umhverfisnefnd hafa haft undir höndum í nokkra mánuði, þar sem er farið ítarlega og djúpt ofan í rökstuðning þess hvers vegna verið sé að gera þær tillögur sem gerðar eru í náttúruverndaráætlun sem hér liggur fyrir. Ég held ég þurfi í raun ekkert að segja neitt meira um það að þessar tillögur eru ekki settar fram út í loftið. Það er ekki þannig, frú forseti. Slíkur málflutningur er þá til þess eins gerður að gera lítið úr þeirri góðu vísindalegu vinnu sem er unnin á stofnunum, hvort sem þær heita Náttúrufræðistofnun, Umhverfisstofnun, náttúrustofurnar allar í kringum landið eða öðrum slíkum á vegum stjórnvalda, þar sem færustu fræðimenn okkar á þessu sviði leggja sig alla fram við að leggja fram vandaðar tillögur sem byggja á vísindalega þekktum og viðurkenndum aðferðum og þeim alþjóðasamningum sem við erum aðilar að. Þannig er málið vaxið.

Hins vegar er alveg ljóst, og þar þarf auðvitað að greiða úr og hafa samráð um samstarf og samvinnu, að ekki verður farið að tillögunum, friðlýsingar verða ekki að veruleika nema um þær náist samkomulag. Það er algjörlega ljóst. Ég sagði í fyrri ræðu minni áðan eða fyrr í dag að við drögnumst því miður svolítið með þann hala að fyrsta náttúruverndaráætlunin sem fram var sett líktist frekar óskalista en raunhæfri áætlun, því miður. Það má líka segja um gamlar friðlýsingar, þær sem hv. þingmaður hefur verið að vísa til. (Forseti hringir.)