138. löggjafarþing — 71. fundur,  1. feb. 2010.

náttúruverndaráætlun 2009-2013.

200. mál
[17:59]
Horfa

Frsm. meiri hluta (Þórunn Sveinbjarnardóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það má með sanni segja að náttúrustofurnar séu bústólpar í héraði og þær hafa svo sannarlega sannað gildi sitt. Það breytir því hins vegar ekki að við verkefni sem þetta, náttúruverndaráætlunina, sem er að ákveðnu leyti svolítið flókin úrlausnar eins og þingmaðurinn benti á, þarf að samræma aðgerðir og einhvers staðar þarf að vera yfirsýn. Yfirsýnin er að einhverju leyti í ráðuneyti, hjá Náttúrufræðistofnun og Umhverfisstofnun og síðan þarf að gæta að því að samvinna við náttúrustofur og útdeiling verkefna sé með þeim hætti að yfirsýnin sé á einum stað og að nýtt sé sú þekking og þeir góðu kraftar sem búa í starfsfólki þessara stofnana og náttúrustofanna um allt land.