138. löggjafarþing — 71. fundur,  1. feb. 2010.

náttúruverndaráætlun 2009-2013.

200. mál
[18:48]
Horfa

Jónína Rós Guðmundsdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar til að velta því fyrir mér hvað það er sem í raun og veru skapar óróa. Stundum finnst mér vera svolítill meiningarmunur á því hvað það er sem skapar óróa. Mig langar til að halda áfram með líkinguna um eggið og hænuna. Hér liggur fyrir ákveðin hugmynd að friðlýsingu á náttúrulegum fyrirbærum sem talin eru mjög mikils virði. Að sjálfsögðu er staðan þannig að t.d. Egilsstaðaskógur og Egilsstaðaklettar, sem ég þekki ágætlega og eru mér mjög kærir, eru í einkaeigu. Að sjálfsögðu verður að fara með málið í ákveðið ferli. Gert er ráð fyrir ákveðnu ferli í greinargerð með frumvarpinu þar sem gert er ráð fyrir að farið verði í faglega vinnu þar sem allir hafa rétt til að andmæla. Ég viðurkenni að ég hefði gjarnan viljað að Egilsstaðaskógur og Egilsstaðaklettar væru ekki þar inni. Það þýðir ekki að ég ætli að styðja breytingartillöguna, vegna þess að mér finnst þetta mál ekki vera nægilega rætt og í tengslum við þetta nýja aðalskipulag sem nýlega er búið að gera á Fljótsdalshéraði, þá finnst mér að ef ég gæti sett upp óskalista þá hefði ég gjarnan viljað að þetta væri ekki þar inni. Ég hef ekki tekið afstöðu til þess hvort ég muni styðja breytingartillöguna, það mun bara koma í ljós. Mig langar til að ítreka það við þingmenn stjórnarandstöðunnar að við verðum stundum að velta því fyrir okkur hvað það er sem veldur óróa. Við getum öll stundum sameinast um það að í staðinn fyrir að búa til óróa hér með því að gera mikið úr egginu en ekki hænunni — þannig að ég held að þetta snúist um það að órói (Forseti hringir.) getur komið víða að.