138. löggjafarþing — 72. fundur,  2. feb. 2010.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[17:45]
Horfa

Frsm. meiri hluta sjútv.- og landbn. (Ólína Þorvarðardóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Þá heyrist mér sem við hv. þm. Sigurður Ingi Jóhannsson séum sammála. Við erum sammála um að það er farsælast að menn gangi fram af rósemi og ábyrgð í þessari umræðu. Þær yfirlýsingar sem þingmaðurinn vísar til sem hafa verið tengdar þessari skötuselsumræðu eru í raun og veru um grundvallarstefnumótun. Það er allt önnur umræða, það er í raun og veru umræða um framtíðarskipan fiskveiðistjórnar, mál sem varðar stefnuna sem stjórnarflokkarnir báru fram í síðustu kosningum, lofuðu að yrði framfylgt og fengu umboð til. Það er náttúrlega þörf umræða, en hún er á öðrum vettvangi og á að vera á öðrum vettvangi.

Ég tek líka undir það með þingmanninum að harkan í umræðunni hefur verið allt of mikil. Þar hafa náttúrlega leikið sitt hlutverk hótanirnar sem fram hafa verið bornar af LÍÚ, t.d. formleg ályktun stjórnar LÍÚ um að sigla flotanum í land, formlegar ákvarðanir um að fara í áróðursherferð með blaðaskrifum, kynningarritum o.fl. Þarna er harkan. Og ókyrrðin er þarna. Það væri gott ef menn gætu lagst á eitt og stjórnmálamenn gætu kannski aðstoðað við að kyrra þessa umræðu aðeins með því að leggja gott til í henni og hvetja menn til að ganga fram af meiri ábyrgð en verið hefur.