138. löggjafarþing — 73. fundur,  3. feb. 2010.

lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

128. mál
[14:30]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Eins og fram kom í fylgiskjali með stefnuræðu forsætisráðherra, sem hér var 5. október sl., er gert ráð fyrir því, í tengslum við breytingar á lögum um Stjórnarráð Íslands, að það kunni að þurfa að gera breytingar á lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins í leiðinni og er áætlað að þær breytingar komi þá til umfjöllunar á vorþingi. Það frumvarp sem væntanlega er á leiðinni til þingsins, og þessu tengist sérstaklega, eru breytingar á lögum um Stjórnarráðið til að innleiða siðareglur í Stjórnarráðinu og þær munu kalla á einhverjar breytingar á lögum um réttindi og skyldur. Um þær breytingar hefur átt sér stað lögboðið samráð við stéttarfélög sem málið varðar eins og jafnan er þegar til breytinga á þessum lögum kemur.

Það er mikilvægt að hafa það í huga í sambandi við lagarammann sem gildir um starfsmenn ríkisins almennt að hann verður að skoða sem eina heild og það er mikilvægt að sams konar skilningur sé lagður í hugtök og túlkanir þannig að að mörgu leyti er nauðsynlegt að endurskoða lagarammann í heild sinni en ekki einstök lög ef í það er ráðist á annað borð.

En til að svara spurningunni almennt vil ég segja að eitt af meginmarkmiðum þess frumvarps sem var lagt fram og varð að lögum nr. 70/1996, um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna, var að færa starfsumhverfi ríkisstarfsmanna nær því sem gerðist á almennum vinnumarkaði. Það markmið hefur í raun og veru ekki náðst heldur má þvert á móti segja að bilið hafi að sumu leyti breikkað milli réttarstöðu starfsmanna hjá ríkinu annars vegar og á almennum vinnumarkaði hins vegar. Ástæðurnar eru m.a. þær að dómaframkvæmd og álit umboðsmanns Alþingis hafa fellt sífellt fleiri þætti í samskiptum stjórnenda og starfsmanna undir ákvæði stjórnsýslulaga og hafa að því leyti til aukið muninn á réttarstöðu starfsmanna á opinberum vinnumarkaði og hinum almenna.

Í dag eru starfsmannamál hjá ríkinu í æ meira mæli tengd stjórnsýslulögum og upplýsingalögum til viðbótar almennum reglum vinnuréttarins. Þegar ákvarðanir eru teknar um réttindi og skyldur starfsmanna þurfa forstöðumenn því oftar en ekki að fylgja málsmeðferðarreglum stjórnsýslulaga og þá þarf í starfsmannahaldi ríkisins að gæta að meginreglum upplýsingalaga um rétt almennings til aðgangs að gögnum, svo sem um ráðningarsamninga, skriflegar áminningar og sérstök yfirlit yfir launasetningu og aðra greiðslu til starfsmanna o.s.frv. Það má spyrja hvort það sé heppilegt eða eðlilegt að reglur stjórnsýslu- og upplýsingalaga séu látnar gilda í jafnríkum mæli og raun ber vitni um samskipti stjórnenda og starfsmanna ríkisins. Vinnusambandið er viðvarandi samband starfsmanns og stofnunar og byggir á gagnkvæmum skyldum. Sjónarmið um réttaröryggi borgaranna eiga tæpast við í því sambandi með sama hætti og þegar um hefðbundna stjórnsýslu er að ræða og þá er um að tefla takmörkuð eða afmörkuð samskipti borganna og stjórnvaldsins. Og það þarf að meta hvort rétt sé og raunhæft að tengja ákvarðanir í starfsmannamálum með þessum hætti reglum stjórnsýslu- og upplýsingalaga.

Þá er það samspilið við kjarasamninga. Fjármálaráðuneytið hefur í samstarfi við hlutaðeigandi samningsaðila sína unnið að endurskoðun laga nr. 94/1986, um kjarasamninga opinberra starfsmanna. Sú vinna hefur að vísu legið niðri um hríð en áformað er að taka hana upp nú á árinu og í tengslum við þá endurskoðun hafa komið upp hugmyndir um gagngera breytingu á starfsmannalögunum. Til að mynda mætti hugsa sér að gildissvið starfsmannalaganna væri takmarkað við embættismenn og setja síðan í kjarasamninga nauðsynleg ákvæði um starfsmenn varðandi upphaf starfs og starfslok, svo sem um starfsævina og þar með talið starfsskyldur og áminningarmál og annað í þeim dúr.

Þá er enn til að taka samspilið við lífeyrislöggjöfina. Almenna reglan hjá starfsmönnum á almennum vinnumarkaði er orðin sú að réttindaávinnslan hjá lífeyrissjóðunum er aldurstengd. Þetta kann að skipta máli við endurskoðun á löggjöf um starfsmannamál hjá ríkinu þar sem óbreytt fyrirkomulag virðist stefna í að ýta undir það að menn kjósi að starfa fyrri hluta ævinnar á almennum vinnumarkaði en komi svo til ríkisins í auknum mæli á síðari hluta starfsævinnar. Er það heppileg þróun fyrir vinnumarkaðinn? Ég hef efasemdir um að svo sé. Með öðrum orðum eru ástæður til að fara yfir ýmislegt í löggjöf sem tengist starfsmannamálum ríkisins. Ég held að það eigi ekki að einskorðast við lög um réttindi og skyldur og ég held heldur ekki að menn eigi að vera of uppteknir af því að skoða þessa lagaumgjörð bara út frá aðstæðum í dag varðandi erfiðleika í rekstri ríkisins vegna þess að hér eru viðkvæm og vandasöm mál undir sem lögum samkvæmt og samkvæmt eðli máls þarf að eiga gott samstarf við viðkomandi stéttarfélög.