138. löggjafarþing — 73. fundur,  3. feb. 2010.

togararall.

182. mál
[16:02]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka þessa umræðu og þakka hæstv. sjávarútvegsráðherra fyrir svörin við spurningum mínum. Eini gallinn er sá að einni spurningunni var ekki alveg svarað og það var fyrri spurningin þar sem ég spurði sérstaklega um hverjar væru helstu tillögur þessa faghóps. Mér finnst afar brýnt að fá það upp á borðið. Ég skil vel að ekki er hægt að gera það hér og nú en ég mun freista þess að fara yfir gögn nefndarinnar, faghópsins, til að leiða þetta fram.

Eins og hér kom fram er gríðarleg tortryggni ríkjandi. Menn efast um forsendur togararallsins og þess vegna var svo mikilvægt að reyna að fara ofan í það alveg frá grunni hvort við værum á einhverjum villigötum, hvort hægt væri að laga þetta eða hvað væri hægt að gera. Ég leit þannig á að það væri verkefni þessa hóps og það kom skýrt fram í því erindisbréfi sem hópnum var sent.

Það sem gert var strax í upphafi var að fjölga einfaldlega togstöðvum eða fara í það að toga á slóð sem togarasjómennirnir og sjómenn á grunnslóð höfðu bent á og til að reyna að bæta grundvöll þessa starfs. Ég sé ekki annað af því sem hæstv. ráðherra sagði að heilmikið hafi verið gert í þessum efnum. Spurningin er einfaldlega þessi: Hvert verður síðan framhaldið, hvernig munum við vinna þetta áfram? Nú er ekki gert ráð fyrir þessum fjármunum á yfirstandandi fiskveiðiári og er ljóst mál að fjárhagur stofnunarinnar verður væntanlega þrengri sem því nemur.

Það þarf að halda þessu áfram því eins og við heyrðum, og hv. 1. þm. Norðvest. sagði, er himinn og haf milli þeirra sem telja að hafið sé fullt af sjó — fyrirgefið, af fiski. Reyndar ætlaði ég að rifja það upp að einn góður togaraskipstjóri gamall að vestan sagði einu sinni við mig: Það er svo mikill fiskur í sjónum að það er meiri fiskur en sjór. Það var það sem ég ætlaði að reyna að koma á framfæri. Síðan eru aðrir sem telja að svo sé ekki, það sé miklu meira af sjó en af fiski í sjónum og þess vegna tel ég mikilvægt fyrir okkur að fara mjög rækilega ofan í þessi mál.