138. löggjafarþing — 74. fundur,  4. feb. 2010.

virkjunarkostir og atvinnuuppbygging.

[10:31]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S):

Forseti. Mig langar að forvitnast um afstöðu iðnaðarráðherra vegna þeirra ummæla Harðar Arnarsonar, forstjóra Landsvirkjunar, í fjölmiðlum í gær þar sem hann telur þá ákvörðun hæstv. umhverfisráðherra að synja staðfestingar á skipulagi Þjórsárvirkjana tefja atvinnuuppbyggingu í tvö ár. Það er alveg ljóst að það er knýjandi þörf fyrir atvinnusköpun og erlenda fjárfestingu í landinu. Aðilar vinnumarkaðarins, sveitarfélög og orkufyrirtæki kalla eftir því um líku og í ljósi þessara orða forstjóra stærsta orkufyrirtækis landsins eru þetta grafalvarleg tíðindi, ekki síst í ljósi þess að fjöldi fyrirtækja hefur óskað eftir viðræðum um atvinnuuppbyggingu. Það lifnaði með öðrum orðum yfir áhuga erlendra aðila til að fjárfesta hér á landi og nú liggur fyrir að þetta fyrirtæki hefur unnið að þessu verkefni í 11 ár, með leyfi Skipulagsstofnunar og þáverandi umhverfisráðherra í sex ár, þannig að þetta er gríðarlegur umsnúningur á öllum þeim áformum sem þarna eru uppi. Mig langar að forvitnast um það, í ljósi þessarar stöðu, hvernig komið er fyrir þeim verkefnum sem við höfum borið væntingar til að verði að veruleika til að létta okkur þá göngu sem við eigum í um þessar mundir.

Þá er ósköp eðlilegt að spyrja hvaða aðrir virkjunarkostir eða orkukostir séu í hendi til að vinna að atvinnuuppbyggingu. Hvaða framkvæmdir sér iðnaðarráðherra fyrir sér að geti orðið að veruleika á næstunni til að létta okkur róðurinn? Það er vitnað til þess að við getum beðið eftir rammaáætlun en væntanlega á síðan eftir að takast á um einstök verkefni sem í henni eru, en það er nauðsynlegt að fá úr því skorið hver afstaða hæstv. iðnaðarráðherra er til þessara mála.