138. löggjafarþing — 74. fundur,  4. feb. 2010.

tilgangur farar forsætisráðherra til Brussel.

[10:50]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ef þetta mál var óljóst fyrir þá er það orðið algerlega óskiljanlegt núna. Hér kom hæstv. utanríkisráðherra og sagði að hæstv. forsætisráðherra væri þarna í einkaheimsókn. (Gripið fram í.) Aðstoðarmaður forsætisráðherra hefur sagt að hæstv. forsætisráðherra sé í opinberum erindagerðum. ESB var með kynningu á vefnum sínum um að hæstv. forsætisráðherra Íslands væri á leiðinni og blaðamenn undirbjuggu sig til að ræða við hæstv. forsætisráðherra. Nú erum við komin í heilan hring og hæstv. utanríkisráðherra upplýsir okkar um að þetta sé bara einkaheimsókn og komi eitthvað skemmtilegt þarna fram geti vel verið að hún muni upplýsa okkur um það. (Gripið fram í.) Virðulegi forseti. Þetta er auðvitað ekki bjóðandi. Hæstv. utanríkisráðherra verður að vera skýrari. Hann verður að útskýra af við hverju notum þetta tækifæri ekki til að tala okkar máli við evrópsku pressuna þegar tækifæri gefst til þess (Forseti hringir.) Af hverju er það ekki gert? Ég bið hæstv. utanríkisráðherra að svara því skýrt.