138. löggjafarþing — 74. fundur,  4. feb. 2010.

staða fjármála heimilanna.

[11:22]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. málshefjanda, hv. þm. Unni Brá Konráðsdóttur, fyrir að hefja þessa umræðu og hæstv. félagsmálaráðherra fyrir hans framlag til hennar. Eins og margsinnis hefur komið fram í umræðu um þessi mál hafa stjórnvöld beitt sér fyrir margvíslegum aðgerðum á undanförnum mánuðum og missirum í kjölfar bankahrunsins til að taka á þeim vanda sem blasir við fjölmörgum heimilum í landinu. Margar af þeim aðgerðum hafa skilað tilætluðum árangri, en við þurfum auðvitað að horfast í augu við það að engu að síður hafa margir ekki getað nýtt sér þau úrræði til hlítar og búa enn þá við verulegan vanda í sínum fjárhagsmálefnum. Þess vegna er mikilvægt að við höldum áfram þessari vinnu sem hafin er við að bæta stöðu heimilanna.

Bankarnir hafa að sjálfsögðu líka, og fjármálastofnanir, verið að taka á þessum málum, margar hverjar með myndarlegum hætti. Viðskiptanefnd Alþingis hefur sérstaklega farið yfir þessi mál með fjármálastofnunum, fengið gott yfirlit og skrifað sérstakt minnisblað um skuldaúrræði einstaklinga sem er óvenjulegt framtak af þingnefnd. Ég tel ástæðu til að þakka nefndinni og einkum og sér í lagi formanni hennar, hv. formanni Lilju Mósesdóttur, fyrir það frumkvæði sem hún hafði í því efni.

Ég tel að það sem er mikilvægt að gera núna sé, eins og hæstv. félagsmálaráðherra sagði, að bæta réttarstöðu skuldara. Eitt verkfæri í því efni er þingmál sem hér hefur verið flutt af þingmönnum Vinstri grænna um svokallaða hópmálsókn. Það verður endurflutt núna. Það er mikilvægt úrræði. Annað er síðan kannski hvað allra mikilvægast, það að draga úr greiðslubyrði heimilanna. Þar vil ég sérstaklega nefna verðtrygginguna. Ég tel löngu tímabært að gera gangskör að því að afnema verðtrygginguna (Forseti hringir.) af fasteignaveðlánum eins og við þekkjum hana í dag. Ég hvet eindregið til þess að í það verði ráðist.