138. löggjafarþing — 74. fundur,  4. feb. 2010.

staða fjármála heimilanna.

[11:38]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég þakka þeim hv. þingmönnum sem hafa blandað sér í umræðuna í dag og vek athygli á því að allir eru hér sammála um að grípa þurfi til aðgerða og það hið fyrsta. Ég vonast til þess að umræðan hér verði hvatning til hæstv. félagsmálaráðherra um að halda áfram af fullum krafti. Ég vonast til þess miðað við orð hæstv. forsætisráðherra á föstudaginn að aðgerðir verði kynntar í næstu viku. Ég veit ekki hvort það stendur, en hæstv. félagsmálaráðherra getur kannski svarað því betur á eftir.

Ég ítreka spurninguna sem ég reyndi að koma að í fyrri ræðu minni: Liggur umfang vandans fyrir? Er greiningarvinna á því í gangi af hálfu ráðuneytisins? Það er gríðarlega mikilvægt til þess að við getum öll verið að tala út frá sömu forsendu.

Ég tel að við verðum öll að einsetja okkur að vinna að sameiginlegri lausn. Við verðum öll að einsetja okkur að reyna að tala á þeim nótum sem fólkið í landinu þarf á að halda í þessu máli. Ég veit að það er erfitt, það væri hægt að halda hérna langa ræðu um aðgerðaleysi og að það þyrfti að gera meira. Ég geri mér fyllilega grein fyrir því að sumum finnst full ástæða til þess en við erum einfaldlega í þeirri stöðu að ástandið er gríðarlega erfitt. Ástandið á heimilunum er viðkvæmt og fjölskyldurnar í landinu þurfa að finna frá hinu háa Alþingi að við getum sest saman að borðinu og reynt að leita sameiginlegra lausna.

Enn og aftur hvet ég hæstv. félagsmálaráðherra til dáða í því efni. Ég vonast til þess að við komum öll til með að standa þar saman og reyna að finna ásættanlegar lausnir.

Ég vonast jafnframt til þess að Hreyfingin óski eftir því að taka sæti í félagsmálanefnd. Hún sá ekki ástæðu til þess að óska eftir því þegar skipað var í nefndir við upphaf þingsins, a.m.k. á Hreyfingin ekki sæti í þeirri nefnd, en ég tel fulla ástæðu (Forseti hringir.) til þess að Hreyfingin komi að þessum mikilvæga málaflokki.