138. löggjafarþing — 75. fundur,  16. feb. 2010.

grein í Vox EU.

[13:35]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina og tek undir það með honum að það er ákaflega mikilvægt að menn fari varlega í allar yfirlýsingar varðandi samskipti Íslendinga, Breta og Hollendinga núna að því er varðar þá viðkvæmu stöðu sem uppi er í þeim samningaviðræðum sem við göngum nú í gegnum varðandi Icesave.

Varðandi þá tilvitnuðu grein sem hv. þingmaður bendir á, og vitnar þar til fulltrúa í peningastefnunefnd, ég býst við að það sé Anne Sibert sem hann er að vitna til, hef ég ekki séð umrædda grein. En ég er auðvitað fullkomlega sammála hv. þingmanni að ef þetta er rétt lýsing sem hv. þingmaður segir að hún gefi í greininni, að Ísland geti staðið undir öllum kröfum og sé ekkert of lítið til þess, eru það afar óheppileg ummæli. Ég get alveg tekið undir það. En hitt er annað mál að ég mun ekki víkja þessum fulltrúa úr peningastefnunefnd fyrir það. Ég minni á að peningastefnunefnd og Seðlabankinn starfa sjálfstætt þannig að það er ekki í mínum verkahring að víkja nefndarmanni fyrir ummæli sem hún viðhefur og hv. þingmaður lýsir þótt ég sé honum alveg sammála um að þau eru afar óheppileg.