138. löggjafarþing — 75. fundur,  16. feb. 2010.

orð ráðherra um sjávarútvegsfyrirtæki.

[13:43]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Það er mikil vanþekking hjá hæstv. ráðherra sem blasir við okkur. Það er greinilegt að hann hefur ekki kynnt sér þær úttektir sem gerðar hafa verið á íslenskum sjávarútvegi og það er alvarlegt mál þegar hann tjáir sig um mál sem hann hefur ekki hundsvit á, það er alveg greinilegt. Eiginfjárhlutfall sjávarútvegsfélaga hefur verið stöðugt frá árinu 1997 og í samanburði við önnur félög og önnur rekstrarform í landinu, aðra atvinnuvegi, er sjávarútvegur síst skuldsettari en þeir. Skuldsetning íslensks sjávarútvegs er minni en almennt gerist í öðrum atvinnugreinum, það er staðreynd og það liggur á borðinu.

Það sem meira er, virðulegi forseti, fræðilegar úttektir sem gerðar hafa verið núna á hlutlausum aðilum segja nákvæmlega að sjávarútvegurinn geti staðið að mestu undir skuldbindingum sínum, miklu frekar en aðrar atvinnugreinar. Mér datt helst í hug, virðulegi forseti, þegar ég las þessi ummæli hæstv. ráðherra í Fréttablaðinu: (Forseti hringir.) Apaköttur, apaspil, að þú skulir vera til.