138. löggjafarþing — 75. fundur,  16. feb. 2010.

stjórn fiskveiða.

370. mál
[16:42]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður sagðist ekki hafa getað orða bundist yfir ræðu minni. Hún vitnaði síðan til einnar tilvitnunar sem ég hafði upp úr skýrslu Háskólaseturs Vestfjarða sem var hluti af samantektinni, aðalatriðunum, meginatriðunum sem áhersla var lögð á. Ég gat auðvitað ekki lesið 50 síðna skýrslu á 15 mínútum.

Hún vakti síðan athygli á öðru atriði sem hún taldi að ég hefði sleppt en ég gerði einmitt að umtalsefni. Ég gat þess að það hefði ekki vakið furðu mína að þeir sem stunduðu veiðarnar væru ánægðir með að fá viðbótaraflaheimildir sem þeir gætu nýtt sér. Skárra væri það nú. Ég hefði orðið mjög undrandi ef þeir sem fengu þarna heimildir til að veiða 4.000 tonn hefðu grátið það hlutskipti sitt. Ég hefði orðið afar undrandi yfir þeim fréttum.

Í þriðja lagi sagði hv. þingmaður að þetta snerist ekki síður um hin samfélagslegu verðmæti en hin efnahagslegu. Það var einmitt það sem ég var að vekja athygli á. Ég sagði að ekki væri hægt að færa nein rök fyrir því að þetta væri efnahagslegur ávinningur fyrir þjóðfélagið en nefna mætti ýmiss konar önnur rök. Ég rakti það t.d. að þetta hefði valdið því að menn hefðu orðið að leggja í aukinn kostnað á bátum sínum, kallað til verkstæðismenn, kallað til rafvirkja og ýmsa iðnaðarmenn o.s.frv. og ýmsu öðru. Ég gerði þetta einmitt að umtalsefni.

Hv. þingmaður sagði að hún hefði ekki getað orða bundist, hún hefði orðið að koma upp til að vekja enn og aftur athygli á þeim málatilbúnaði mínum, því sem ég gerði sjálfur að nokkru umræðuefni í þessari kortersræðu, um þetta fyrirkomulag veiðanna, sem háskólasetrið lýsir mjög vel, sem er auðvitað gríðarlega þýðingarmikið, hin samfélagslegu áhrif sem ekki eru hin efnahagslegu áhrif, og síðan auðvitað að útgerðarmennirnir sem fengu leyfi til að veiða þarna 4.000 tonn væru auðvitað kátir með það.