138. löggjafarþing — 77. fundur,  18. feb. 2010.

skuldavandi heimilanna.

[10:47]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég hef þá skoðun að við sem störfum á þinginu berum í dag þá frumábyrgð að blása von í brjóst Íslendinga, það er okkar verkefni. Það dugir ekki að tala um það, við þurfum líka að sýna það í verki. Við höfum talað fyrir því, sjálfstæðismenn, varðandi skuldavanda heimilanna að flokkarnir settust saman að því að reyna að finna lausnir í því stóra máli sem varðar allar fjölskyldur landsins. Í utandagskrárumræðu þar sem ég átti orðastað við hæstv. félags- og tryggingamálaráðherra um skuldavanda heimilanna, voru allir sammála um að það væri gott að hafa góða samstöðu í þessum málum og nauðsynlegt væri að tala meira saman. Jafnframt kom þar fram í máli ráðherrans að til stæði frekara samráð allra flokka um frekari úrvinnslu lagabreytingartillagna um þessi mál.

Því vil ég spyrja hæstv. félagsmálaráðherra: Hvenær kemur að þessu samráði varðandi lagabreytingartillögurnar? Þrátt fyrir að ég sé mjög þolinmóð manneskja er mig aðeins farið að lengja eftir slíku samráði varðandi þau úrræði og þær lagabreytingar sem eiga að fara fram og er nauðsynlegt að fari fram, og m.a. ASÍ hefur bent á ákveðnar tillögur í því efni. Ég vil því beina þessari fyrirspurn til hæstv. félagsmálaráðherra í fullri vinsemd en bendi jafnframt á að það er ekki nóg að tala fallega um samráð, við verðum líka að sýna það og við verðum að sýna þjóðinni að við getum unnið saman í þessu máli. Ég vonast til að fá skýr og góð svör frá ráðherranum og minni jafnframt á að hæstv. forsætisráðherra tók jafnframt í sama streng, aðspurð af hv. þm. Þorgerði K. Gunnarsdóttur, í lok janúar á þessu ári þar sem hæstv. forsætisráðherra sagðist vilja skoða það með jákvæðum hætti að stjórnarandstaðan kæmi frekar að þessu máli.