138. löggjafarþing — 77. fundur,  18. feb. 2010.

snjómokstur í Árneshreppi.

[10:55]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Virðulegi forseti. Þó að íbúar í Árneshreppi séu fáir og eins og hv. þingmaður sagði, hafi ekki tækifæri til að láta í sér heyra, er ég ekki sammála því vegna þess að ég þekki alla vega einn, sem telst vera ritari samgöngunefndar Árneshrepps, sem heitir Hrafn Jökulsson. Hann er í miklu og góðu sambandi við okkur þó að hann sé kannski ekki alltaf ánægður með okkur í samgönguráðuneytinu.

Hv. þingmaður sem spyr út í snjómokstur stóð að því ásamt öðrum í stjórnarmeirihlutanum að lækka framlög til samgönguráðuneytis og samgöngustofnana um 10% á þessu ári og við verðum að hlýða löggjafanum og fara í niðurskurð sem þetta varðar. Farið var í snjómokstursreglur, í ferjur, áætlunarbíla, flug og allt saman og rekstur, þannig þurfti að gera þetta. Hins vegar er það svo, virðulegi forseti, að þó að til væru peningar getur stundum verið vandkvæðum bundið að moka í hinum ágæta Árneshreppi og það er út af því sem ég hef áður sagt hér, slæmum vegi, slæmu vegarstæði, hættulegum vegi til að moka og stundum hættulegum líka fyrir snjómokstursmenn. Það er nú þannig. Hins vegar í þeirri áætlun þar sem við þurftum að breyta snjómokstursreglum og fara í raun og veru aftur til 2007 með reglurnar, það var þó ekki verra en það, 2006, 2007, þar eigum við í fórum okkar reglu sem er kölluð G-regla Árneshrepps sem á að taka til þessa vegna þess að þetta er eina sjálfstæða sveitarfélagið sem er með svona slæmar samgöngur. (Gripið fram í.) Mjófirðingar kvarta að vísu líka en þeir hafa ferju. Þess vegna er þetta svona. En gagnvart ófærðinni núna er landsbyggðarþingmanninum væntanlega kunnugt um að það gerði svolítinn óveðurskafla, það snjóaði svolítið og þess vegna varð ófært og ekki bara þarna heldur ýmsir aðrir vegir sem falla undir þessa G-reglu. (Forseti hringir.) Það hefur líka komið fram, virðulegi forseti, og við höfum rætt það áður, ég og hv. þingmaður, að það var ákveðið af hinni ágætu ríkisstjórn síðastliðið haust að það mundi ekki snjóa mikið í vetur og það hefur gengið eftir.