138. löggjafarþing — 77. fundur,  18. feb. 2010.

snjómokstur í Árneshreppi.

[10:58]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Það er svo, virðulegi forseti, með hið ágæta Evrópusamband, það kaupfélag, að Alþingi tók líka ákvörðun um það, að vísu ekki umræddur þingmaður en ýmsir flokksfélagar hans, að ganga til aðildarviðræðna við Evrópusambandið. (BJJ: Flestir.) Flestir, og skal ég taka það fram að ég verð víst að játa þau mistök mín í gær, þegar ég sé hér hv. þm. Birki Jón Jónsson, að ég gleymdi að telja hann upp sem einn af þremur þingmönnum Framsóknarflokksins sem studdu aðildarumsóknina um Evrópusambandið og biðst ég afsökunar á því að hafa gleymt þeim ágæta þingmanni. (Gripið fram í: Þér er fyrirgefið.)

Þá förum við frá Evrópusambandinu til Árneshrepps. Það er svo, virðulegi forseti, ég hef engu við það að bæta, en ég svara ekki útúrsnúningum um það eins og kom fram hjá hv. þingmanni, og ég held að hann ætti að sleppa því, að það sé eitthvað hættulegra fyrir snjóruðningsmenn eftir áramót en ekki fyrir áramót. Þetta er náttúrlega bara rugl og ekki sæmandi þingmanninum að setja svona fram. Það þarf að taka tillit til þessara þátta (Forseti hringir.) og það er stundum þannig, virðulegur forseti, á slæmum vegum í bröttum fjallshlíðum eins og þarna er, að þar er stundum snjóflóðahætta. Ég er ekki að segja að það sé þannig núna, (Forseti hringir.) ég er ekki að segja að það sé svoleiðis, virðulegur forseti. En hv. þingmaður situr í fjárlaganefnd og ef hann tekur á með mér um það að skapa sérstaka fjárveitingu (Forseti hringir.) til að moka í Árneshreppi þá fagna ég því.