138. löggjafarþing — 77. fundur,  18. feb. 2010.

staða atvinnulausra.

[11:31]
Horfa

Erla Ósk Ásgeirsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum um stöðu atvinnulausra sem nú telja rúmlega 14.000 manns en til samanburðar voru atvinnulausir í september 2008 2.500 manns. Úrræðin til að aðstoða fólk við að komast aftur út á vinnumarkaðinn virðast því miður ekki virka sem skyldi en samkvæmt skýrslu Samtaka atvinnulífsins, Atvinna fyrir alla, tóku einvörðungu 8% þátt í vinnumarkaðsaðgerðum sem gefur skýra vísbendingu um að endurskoða þurfi að nýju þær aðgerðir og þá nálgun sem þar er notast við þar sem úrræðin eru ekki nýtt betur en raun ber vitni.

Virðulegi forseti. Við erum að missa unga fólkið af landi brott en flestir þeirra sem fluttust í burtu á síðasta ári eru á aldrinum 25–29 ára sem er einmitt fjölmennasti aldurshópurinn á atvinnuleysisskrá, þ.e. um 30,5% allra atvinnulausra. Það er verulegt áhyggjuefni enda mannauðurinn ein helsta auðlind okkar. Við verðum að taka þetta alvarlega.

Þessar tölur eru skýr skilaboð um að ungt fólk sækir atvinnutækifæri sín utan landsteinanna sem þýðir að fjöldi fólks metur það svo að það sé ákjósanlegra að búa annars staðar en á Íslandi. Ísland á að vera ákjósanlegur staður fyrir ungt fólk að búa á og við verðum að búa svo um hnútana að það finni kröftum sínum farveg hér heima. Atvinnumálin þola enga bið. Ef ekkert verður að gert blasir við að þeim muni fjölga sem velja að flytjast af landi brott í leit að atvinnutækifærum.

Langtímaatvinnuleysi er jafnframt verulegt áhyggjuefni en 4.000 manns hafa verið atvinnulaus í meira en 12 mánuði. Við verðum að bregðast hratt við og skapa ný tækifæri. Það þýðir ekki að stinga höfðinu í sandinn og segja að hér sé atvinnuleysi sambærilegt og í ESB líkt og hæstv. forsætisráðherra hefur sagt. Við höfum aldrei viljað líta þangað áður til samanburðar og við eigum ekki að gera það núna. Við eigum ekki að sætta okkur við þetta ástand. Atvinnulausir eiga það skilið að við leitum allra leiða til að auka tækifæri þeirra á ný.

Að lokum, virðulegi forseti, langar mig að heyra afstöðu hæstv. (Forseti hringir.) félagsmálaráðherra til tillögu Samtaka atvinnulífsins og (Forseti hringir.) Alþýðusambands Íslands um nýskipan atvinnuleysistrygginga þar sem gert er ráð fyrir að aðilar vinnumarkaðarins beri ábyrgð á framkvæmd (Forseti hringir.) atvinnuleysistrygginga. Ég fer nánar út í það á eftir.