138. löggjafarþing — 77. fundur,  18. feb. 2010.

gengistryggð lán.

[13:57]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Það hefur lengi verið skoðun mín að það ætti að afnema verðtryggingu lánaskuldbindinga. Fyrir því sjónarmiði hef ég talað lengi og reyndar löngu áður en við lentum í þeim efnahagshremmingum sem við stöndum frammi fyrir núna. Ég tel að verðtryggingin endurspegli ekki heilbrigða viðskiptahætti. Áhættan er öll lántakanda megin, en ekki lánveitandans. Það tel ég ekki bera vott um heilbrigða viðskiptahætti.

Gengistrygging útlána er í raun ein tegund verðtryggingar. Nú hefur Héraðsdómur Reykjavíkur dæmt þessa tengingu óheimila og enda þótt annar dómur sé til sem kemst að annarri niðurstöðu er þetta sú staða sem margir horfa á í dag, og við öll væntanlega.

Ég tel að það sé í raun ótrúlegt að þetta hafi getað gerst, þ.e. að lánastofnanir sem eru eða eiga a.m.k. að vera með sérþekkingu á lögum um lánastarfsemi, þar með talið lögunum um vexti og verðtryggingu, hafi getað boðið upp á starfsemi sem a.m.k. orkar tvímælis að standist lögin, að ég tali nú ekki um að eftirlitsstofnanir hafi ekki gert við þær athugasemdir. Þetta er enn eitt dæmið um að eftirlitsstofnanirnar á þessu sviði, Fjármálaeftirlitið og Seðlabanki, hafi í raun brugðist hlutverki sínu. Þetta er ekki eina dæmið sem við höfum horft fram á hér undanfarna mánuði og missiri sem þannig er statt um.

Ég tel þess vegna að hér hafi forsendur brostið að miklu leyti fyrir þá lántakendur sem eiga í hlut. Sú réttaróvissa sem hefur skapast er ekki bara bagaleg, hún kallar að mínu viti beinlínis á aðgerðir til að tryggja að lántakendurnir beri ekki skaða af þeirri réttaróvissu, a.m.k. á meðan beðið er endanlegrar niðurstöðu Hæstaréttar sem vonandi verður sem allra fyrst þannig að þessari óvissu verði eytt. Ég hefði gjarnan viljað heyra viðhorf hæstv. ráðherra til þess hvaða aðgerða er hægt er að grípa til til þess að lántakendur beri ekki skaða á meðan beðið er endanlegrar niðurstöðu.