138. löggjafarþing — 77. fundur,  18. feb. 2010.

sóknaráætlun til eflingar atvinnulífi og samfélagi um land allt.

332. mál
[14:37]
Horfa

iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Miðað við þau orð sem hv. þingmaður viðhafði rétt í þessu í sínu seinna andsvari um að hann vildi sjá að þingmenn einhentu sér í að fara að byggja upp, fara hér í það verkefni saman að leiða íslenska þjóð í sameiningu út úr þeim hremmingum sem við erum í, þótti mér ræða hans um þessa sóknaráætlun heldur hornótt. Um það fjallar nefnilega það verkefni, að eiga samtalið við þjóðina úti um allt land, eiga samtal við hagsmunaaðila, þverpólitískt, sveitarfélögin og landshlutasamtökin. Það er gríðarlega öflug vinna sem augljóst er að hv. þingmaður, væntanlega þá að tala fyrir hönd Sjálfstæðisflokksins eða þingflokks sjálfstæðismanna, hefur misst af. Ég vona að hv. þingmaður missi ekki af þeim fundum sem fram undan eru vegna þess að þarna á sér stað gríðarlega dýnamísk umræða um framtíðina.

Ástæðan er sú að við erum að koma t.d. út úr tímabili atvinnustefnunnar sem hefur verið tilviljanakennd, hún hefur einkennst af öfgum, bólum og innspýtingum. Hún var ekki sjálfbær. Þess vegna horfðum við upp á þessa gríðarlegu ofþenslu og horfum síðan á þennan gríðarlega harkalega samdrátt á ákveðnum sviðum. Við ætlum að reyna að koma okkur út úr þessu.

Samkeppnishæfi okkar Íslendinga mun byggja á því að við komum okkur hratt út úr þeim hremmingum sem við erum í núna. Þess vegna hefur þessi ríkisstjórn tekið þá ákvörðun að loka fjárlagagatinu hratt. Það eru draumóramenn sem halda að ekki hafi þurft að hækka skatta einhvers staðar. Og ástæðan fyrir því að verkefni fjárfesta sem hingað hafa litið eru hér enn er sú að það var gert af sanngirni og verður gert áfram. Það er áætlun þessarar ríkisstjórnar. Það verður þunnt lag. Þetta verður vonandi ekki til frambúðar vegna þess að við ætlum okkur að koma okkur hratt og örugglega út úr þessu.

Við þurfum líka að hætta þessum öfgakenndu nálgunum. Við þurfum að ná jafnvægi. Það gerum við best með því að hafa heildaráætlun um atvinnulífið, (Forseti hringir.) heildarsóknaráætlun um uppbyggingu á þjónustu, heildaráætlun og einhverja heildarsýn (Forseti hringir.) á okkar sameiginlegu framtíð, íslensku þjóðarinnar.