138. löggjafarþing — 77. fundur,  18. feb. 2010.

sóknaráætlun til eflingar atvinnulífi og samfélagi um land allt.

332. mál
[14:57]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf):

Hæstv. forseti. Mér þykir ástæða til að fagna þessari tillögu til þingsályktunar um sóknaráætlun til eflingar atvinnulífi og samfélagi um land allt, sem forsætisráðherra fór yfir í upphafi umræðunnar um þetta mál. Það er líka ástæða til að fagna því að þetta mál sé á forræði forsætisráðherra sem vísar til þess hve mikil alvara er hér að baki. Hér eru vissulega mörg fögur orð á blaði en þeim mun mikilvægara er að við þau orð verði staðið. Ég mun sjá til þess að stjórnvöldum verði veitt aðhald í þeim efnum vegna þess að það er ekki nóg að setja fram áætlun, það verður að fylgja henni eftir og ég hef fulla trú á því að þessari áætlun verði hrundið af stað og fylgt eftir.

Sagan er ekki beinlínis hinum dreifðu byggðum í hag í þessum efnum á umliðnum árum og áratugum. Í reynd má segja að á síðustu áratugum hafi ríkisvaldið staðið fyrir sóknaráætlun fyrir Reykjavík en varnaráætlun fyrir restina. Þessu verður að snúa við, ekki aðeins hinum dreifðu byggðum og byggðasvæðum um landið til hjálpar eins og verið hefur, heldur til sóknar. Vandinn í byggðastefnu á undanförnum árum hefur einmitt verið sá að það er verið að hjálpa veikum svæðum, áherslan hefur öll verið á það, í stað þess að sækja fram á sterkustu svæðunum og tryggja enn frekar byggð á þeim. Byggðastefnan hefur sem sé verið rekin á veikleikanum frekar en á styrkleikanum. Því þarf að breyta. Ég hef þá trú að þessi sóknaráætlun muni snúa þeirri þróun við.

Hver er sagan og hvernig getum við lært af henni? Horfum t.d. til flutnings opinberrar þjónustu út á land á undanliðnum árum. Hver er sagan í þeim efnum? Hvað hefur hún kennt okkur? Hvað hefur hún fært byggðasvæðum úti á landi? Svarið er giska aumt: Eitt opinbert fyrirtæki hefur verið flutt út á land í heilu lagi á undanliðnum árum og áratugum, Skógrækt ríkisins austur á Hérað og virðist þó vera tæpt að sú stofnun fái að vera þar í friði fyrir ásælni Reykjavíkurvaldsins. Ein stofnun í heilu lagi á síðustu áratugum, það er eftirfylgnin af vilja stjórnvalda við að flytja stofnanir út á land.

Sagan kennir okkur líka að þau útibú stofnana sem flutt hafa verið út á land hafa ávallt verið í vörn og þangað hefur niðurskurðarhnífurinn seilst einna fyrst þegar kemur að svokallaðri hagræðingu í hinum opinbera geira. Þessu þarf að linna, þetta þarf að laga. Það á að vera jafnsjálfsagt að byggja upp opinbera þjónustu úti á landi og á Reykjavíkursvæðinu, þó ekki væri sakir annars en að það er þjóðhagslega hagkvæmt að vera með þróttmikla opinbera starfsemi úti á landi hvað varðar minni starfsmannaveltu, meiri viðveru og lægri húsnæðiskostnað, eins og skýrslur hafa greint frá.

Það er trú mín að þessi sóknaráætlun geti skilað sterkari byggðasvæðum um allt land. Það er mín pólitíska sannfæring að efling sveitarstjórnarstigsins sé sú leið sem færust er fyrir byggðasvæðin úti á landi til að sækja fram í atvinnumálum, menningarmálum, félagsmálum og öðru er lýtur að gæðum og lífsgæðum á hverju byggðasvæði. Við þurfum að snúa þessu við. Það er ekki sjálfgefið að ríkisvaldið reki 70% af opinberri þjónustu og sveitarfélögin afganginn, u.þ.b. 30%, það má alveg eins sjá það fyrir sér að þessu verði snúið við og sveitarfélögin eflist að miklum mun, þó ekki væri sakir annars en að hinni miðlægu þráhyggju í opinberri þjónustu sem öll er skömmtuð úr hnefa frá Reykjavíkurvaldinu, þeirri sýn verði breytt og að valdið færist út á land, því verði dreift í eðlilegum skömmtum til þeirra svæða sem eru sterkust og eiga mestu möguleika á að dafna.

Í þessari þingsályktunartillögu eru þau svæði einmitt tíunduð, og þá komum við að mikilvægi þess sem mestu máli skiptir fyrir þessa sóknaráætlun, það er efling sveitarstjórnarstigsins og það er sameining sveitarfélaga sem víðast hvar um landið. Ég hef þá trú að sameina verði sveitarfélögin að miklum mun meira frá því sem verið hefur. Við munum þá tíð, um miðjan sjöunda áratug síðustu aldar, þegar á að giska 250 sveitarfélög voru á Íslandi, frú forseti, 250 sveitarfélög í þessu fámenna landi. Nú eru þau á að giska 70. Sagan kennir okkur að sameining hefur tekist víðast hvar með ágætum hætti. En betur má ef duga skal. Eins og hæstv. samgönguráðherra hefur vikið að í ræðu og riti er stefnt að því að sveitarfélög hér á landi verði u.þ.b. 17, og það er mín vissa og trú að þau megi ekki vera fleiri vegna þess að við þurfum að efla sveitarstjórnarstigið eins og við frekast getum hvað varðar þjónustu, samgöngur og verkefnatilflutning frá ríki til sveitarfélaga.

Eitt má heldur ekki gleymast í þessu. Á undanliðnum árum hefur ríkisvaldið fest fé í miklum byggingum og samgöngumannvirkjum mjög víða um land. Það er áhyggjuefni að þjóð eins og Íslendingar velji einn stað, svo dæmi sé tekið, Leifsstöð, til að flytja inn 97% þeirra útlendinga sem koma til landsins, um eitt hlið, frú forseti. Afgangurinn, hartnær 3% koma um aðrar dyr inn til landsins, svo sem eins og á Seyðisfirði og á þeim flugvöllum úti á landi sem við þekkjum, Akureyrarflugvöll og Egilsstaðaflugvöll. En hér þarf að snúa við, hér þarf að nýta fjárfestingu ríkisins miklum mun betur. Þess vegna trúi ég að þessi sóknaráætlun muni fela í sér að nýta einmitt þær fjárfestingar sem þegar hefur verið ráðist í víða um landið til að efla þó ekki væri nema ferðaþjónustu og aðra atvinnuuppbyggingu. Það er afskaplega mikilvægt að mínu viti að nýta þær fjárfestingar sem fyrir eru til að sækja fram fyrir þessi byggðarlög.

Þá komum við einmitt að einum helsta vaxtarkippi í íslenskum atvinnurekstri sem er ferðaþjónustan. Örfá orð um hana. Það verður nefnilega svo að vera að landið allt sé valkostur í ferðaþjónustu og það gerum við ekki nema tryggja eins víðtæka og sterka þjónustu mjög víða um land og nokkur kostur er, til þess að svæði eins og Eyjafjarðarsvæðið, Ísafjarðarsvæðið, svæði eins og Hérað og Fjarðabyggð, eigi möguleika á að taka til sín þá ferðamenn sem vilja í auknum mæli ferðast um eigið land í stað þess að eyða dýrmætum gjaldeyri í útlöndum. Við þurfum að tryggja að þessi sterku byggðasvæði, sem vonandi verða sterkari á næstu árum, geti tekið á móti auknum fjölda ferðamanna innan lands frá og ekki síst utan lands frá, með því að flytja þá beint á staðinn um Akureyrarflugvöll og Egilsstaðaflugvöll, svo ég nefni aðeins tvo kosti.

Að lokum vil ég nefna þetta, frú forseti. Orkumöguleikar til uppbyggingar atvinnulífs víða um land eru vannýttir með margvíslegum hætti. Þá verður að nota með virkari hætti en verið hefur en þá verður að huga að einu: Hvert er nýtanleg orka í landinu að fara? Viljum við, þingmenn í þessum sal, að öll nýtanleg orka í landinu fari á einn stað og verði upptekin til atvinnustarfsemi á suðvesturhorninu? (Gripið fram í: Nei.) Ég segi nei. Orkan sem er að fá á hverjum stað á að vera nýtt á staðnum, og ég nefni þar t.d. Þeistareykjasvæðið. Það er fásinna að flytja þá orku til suðvesturhornsins vegna þess að þangað (Forseti hringir.) hefur nánast öll orka sem virkjanleg er á landinu verið flutt á síðustu (Forseti hringir.) árum. Þar er líka sóknarfæri — að nota orkuna á staðnum.