138. löggjafarþing — 77. fundur,  18. feb. 2010.

sóknaráætlun til eflingar atvinnulífi og samfélagi um land allt.

332. mál
[15:25]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í efnahagstillögum sjálfstæðismanna, svo ég ítreki það nú fyrir hæstv. ráðherra, var gert ráð fyrir að halda uppi því framkvæmdastigi af hálfu ríkisins sem reiknað var með. Þar segir allt um samgönguframkvæmdir, þær spila þar stóran þátt. (Samgrh.: En viðskiptaþing?) Ég hef ekki lesið tillögur viðskiptaþings enn þá og það kemur því ekkert við, þetta eru tillögur Sjálfstæðisflokksins.

Virðulegi forseti. Hér er allt á fullri ferð í atvinnuuppbyggingu, hér er allt á blússandi ferð og hér er bjartsýni ríkjandi. Þetta fólk er ekki í tengslum við samfélagið. Ég tek undir með ASÍ þegar þeir krefjast aðgerða, þegar þeir segja að ríkisstjórnin hafi ekki staðið við gerða samninga, hafi ekki lokið viðræðum um fjármögnun verkefna við lífeyrissjóðina sem átti að ljúka fyrir hálfu ári, hafi lagt stein í götu framkvæmda við álver í Helguvík, virkjana í neðri Þjórsá og fleira mætti telja til. (Samgrh.: Hvað með …?) Ég tek undir með miðstjórnarfundi ASÍ um að megn óánægja sé með áhugaleysi ríkisstjórnar á framgangi stöðugleikasáttmálans og atvinnusköpun. Og nú virðist ríkisstjórnin vilja sem minnst af þessu vita. Ég tek undir með SA um að með aðgerðum og aðgerðaleysi sínu tryggi ríkisstjórnin minni hagvöxt en ella, meira atvinnuleysi, minni kaupmátt almennings og takmarki getu ríkissjóðs og sveitarfélaga til að verja velferðarkerfið í landinu. Þetta er einkunnagjöf aðila vinnumarkaðarins. Þetta er einkunnagjöf fulltrúa fólksins í landinu. (Samgrh.: En hvað með Suðurnesin?) Það er gott sem er að gerast á Suðurnesjum, hæstv. ráðherra, ég fagna því. En það er ekki ykkur að þakka. Það eru ákvarðanir sem voru komnar af stað áður en þið komust til valda og var búið að leggja grunninn að, en þið hafið reynt að setja stein í götu þess alveg eins og segir í nýlegri yfirlýsingu frá Alþýðusambandi Íslands. Ég tek undir með þessu fólki og ég tala máli þess á þingi og ég segi við ykkur, hæstv. ríkisstjórn: Farið nú út úr þessum fílabeinsturni ykkar. (Forseti hringir.) Farið að tala við og hlusta á fólkið í landinu og þá sem ráða og leitið ráða (Forseti hringir.) hjá þeim sem betur geta.