138. löggjafarþing — 77. fundur,  18. feb. 2010.

birting skjala og annarra upplýsinga um ákvörðun um stuðning Íslands við innrásina í Írak.

289. mál
[16:37]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Fyrst varðandi Kósóvó. Þetta val sem hv. þingmaður nefndi áðan er bara ekki uppi, af því að það liggi á að grípa til aðgerða geti menn skautað fram hjá lögum og rétti nema menn séu einmitt þeirrar skoðunar að alþjóðleg lög og réttur séu þannig að ef menn telji nauðsyn að fara fram hjá sé það heimilt. Menn geta ekki bæði átt kökuna og borðað hana.

Síðan varðandi ákvörðun þá sem hér um ræðir, aðdraganda hennar og það sem hv. þingmaður kallar sérstaklega eftir, hvers vegna og hvernig þeir sem tóku ákvörðunina gátu tekið hana, gátu þeir aðilar tekið ákvörðunina á grundvelli stjórnarskrár, verkaskiptingar á milli þings og framkvæmdarvalds og þingskapa. Allt liggur þetta mjög ljóst fyrir, m.a. í áliti því sem Eiríkur Tómasson skrifaði og reyndar í áratugalangri hefð um verkaskiptingu á milli framkvæmdarvaldsins og þingsins. Spurningunni um hvernig menn gátu tekið þessa ákvörðun hefur fyrir löngu verið svarað, svarið liggur alveg fyrir.

Enn og aftur, það er allt uppi á borðum í þessu máli. Það sem hefur gerst í mörgum landanna í kringum okkur, eins og t.d. Bretlandi og Bandaríkjunum, þar sem menn hafa verið að rannsaka hvernig t.d. upplýsingar urðu til sem breskum og bandarískum stjórnvöldum voru síðan sýndar sem hafi orðið grundvöllur að ákvarðanatöku þessara ríkja sem sendu síðan herafla sína suður til þessa lands er mikið rannsóknarefni og alveg nauðsynlegt fyrir þær þjóðir að fara í gegnum það. Hvað það er nákvæmlega sem við Íslendingar ætlum að rannsaka er það sem þingmaðurinn hefur nefnt og við öllu því eru svör af því að það liggur allt fyrir opinberlega.

Það sem meira er, Eiríkur Tómasson, prófessor í lögum, tekur alveg sérstaklega á því máli sem vitnað er til varðandi samráð við utanríkismálanefnd. Það væri áhugavert að heyra frá hv. þingmanni hverju þingmaðurinn er ósammála í niðurstöðum Eiríks Tómassonar hvað það mál varðar, hvaða lagarök þingmaðurinn ber fyrir sig og vill benda á (Forseti hringir.) til þess að hnekkja því áliti sem Eiríkur Tómasson hefur sett fram.