138. löggjafarþing — 77. fundur,  18. feb. 2010.

birting skjala og annarra upplýsinga um ákvörðun um stuðning Íslands við innrásina í Írak.

289. mál
[16:46]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Enn á ný, það sem hér um ræðir, þ.e. sú ákvörðun sem tekin var árið 2003 um pólitískan stuðning við innrásina í Írak, hefur það komið fram með mjög skýrum hætti hverjir tóku þá ákvörðun, á hvaða forsendum þeir tóku þá ákvörðun, hvaða upplýsingar þeir notuðu til að mynda sér sína afstöðu. Hinn lagalegi grundvöllur slíkra ákvarðana hefur komið fram, fyrir liggur t.d. álit prófessors Eiríks Tómassonar, sem er mjög afgerandi og skýrt og þar eru færð fram mjög sannfærandi og sterk lagaleg rök fyrir því hvaða stöðu framkvæmdarvaldið hefur í þessum málum, hver ábyrgð utanríkisráðherra er og hvert verksvið og valdsvið þess ráðherra er til að taka slíka ákvörðun. Allt liggur þetta mjög ljóst fyrir.

Það er ekki vegna þess að ég vilji ekki ræða þetta mál, að ég vilji ekki ræða hvort þessi ákvörðun var rétt eða röng, ég er bara að benda á er að það sem er verið að kalla eftir og rannsaka er í eðli sínu mjög ólíkt því sem t.d. er verið að ræða í Bretlandi, þar sem menn eru einmitt að fást við sjálfan grundvöll ákvarðanatökunnar sem eru þær upplýsingar sem komu frá bresku leyniþjónustunni, samskipti bresku leyniþjónustunnar og stjórnvalda, úrvinnsla upplýsinga o.s.frv. Það er margt hvert, þegar menn hafa skoðað það, stórlega ámælisvert. Þar urðu menn margir hverjir fórnarlömb spunafræðanna þar sem menn blönduðu saman upplýsingum sem átti að vinna á faglegum forsendum, þar sem menn áttu að leggja faglegt mat á hlutina ef svo má að orði komast, og hins vegar pólitískrar hentistefnu. Það er alveg eðlilegt að það sé skoðað og ekkert undarlegt eða athugavert við það. En það sem hér er um að ræða, þar sem um er að ræða grundvöll þessarar ákvörðunar, rétt utanríkisráðherra og forsætisráðherra til að taka þessa ákvörðun samkvæmt íslenskum lögum, (Forseti hringir.) tel ég að liggi allt saman fyrir og hafi verið rætt í þaula (Forseti hringir.) bæði af lögfræðingum og mörgum öðrum.