138. löggjafarþing — 78. fundur,  22. feb. 2010.

fjárhagsleg staða Álftaness og annarra sveitarfélaga.

[15:42]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég vil fyrir það fyrsta þakka hv. þingmanni og málshefjanda, Magnúsi Orra Schram, fyrir frumkvæði að þessu brýna umfjöllunarefni sem er fjárhagsleg staða allra sveitarfélaganna í landinu, ekki bara Álftaness. Því miður hefur efnahagskreppan haft gríðarlega neikvæð áhrif á rekstur og fjárhagslega stöðu margra sveitarfélaga í landinu.

Árið 2007 var eitt besta ár í hagsögu sveitarfélaganna, en svo kom skellurinn 2008. Tekjur hafa dregist saman hjá flestum sveitarfélögum að raungildi, félagsleg útgjöld hafa vaxið, fjármagnskostnaður er mun meiri en áður og skuldir hafa margfaldast. Kreppan bitnar ekki hvað síst á hinum svokölluðu vaxtarsveitarfélögum, þ.e. þeim sveitarfélögum sem voru í miklum vexti fyrir hrunið og höfðu ráðist í miklar fjárfestingar í innviðum til að mæta áætluðum íbúavexti eins og var á Álftanesi.

Þessar miklu fjárfestingar voru að umtalsverðu leyti fjármagnaðar með lánum teknum í erlendri mynt. Eins og bent var á í áfangaskýrslu tekjustofnanefndar sem kom út í lok síðasta árs hafði efnahagshrunið ekki síst neikvæð áhrif á þau sveitarfélög sem skulduðu hlutfallslega meira en önnur, sérstaklega ef skuldirnar voru að hluta tengdar í erlendum gjaldeyri. Komst nefndin því að þeirri niðurstöðu að meginvandi sveitarfélaganna um þessar mundir væri skuldavandi. Þetta mat tekjustofnanefndar fær stoð í þeirri greiningu sem fram hefur farið hjá eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga. Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum hefur nefndin á síðustu mánuðum átt samskipti við 10 sveitarfélög vegna þróunar í fjármálum þeirra. Fjárhagsleg staða þeirra er vissulega misjöfn sem og forsendur þeirra til að takast á við vandann. Flest eiga þau sammerkt að vera flest hin svokölluðu vaxtarsveitarfélög eins og áður sagði.

Það er breyting frá fyrri árum þegar athuganir nefndarinnar voru aðallega bundnar við sveitarfélög á landsbyggðinni sem tókust á við fjárhagslega aðlögun í kjölfar mikillar fólksfækkunar. Af þessum 10 sveitarfélögum hafa tvö sveitarfélög farið í frekara eftirlitsferli á grundvelli 75. gr. sveitarstjórnarlaga. Það þýðir að viðkomandi sveitarfélög voru komin í fjárþröng og gátu ekki staðið í skilum. Því bar þeim að tilkynna það til eftirlitsnefndar með fjármálum sveitarfélaga. Þetta eru sveitarfélögin Bolungarvíkurkaupstaður og Sveitarfélagið Álftanes. Í báðum tilvikum var aukaálag lagt á útsvar í kjölfar samnings viðkomandi sveitarstjórna við eftirlitsnefndina og gjaldskrár voru hækkaðar, auk þess sem unnið var að hagræðingaraðgerðum svo ná mætti sjálfbærni í rekstri sveitarfélaganna á næstu 3–4 árum. Munurinn á þessum tveimur sveitarfélögum er hins vegar sá að áætlanir sýndu fram á að hægt væri að ná sjálfbærni í rekstri Bolungarvíkur með almennum stuðningsaðgerðum en fjárhagsvandi Álftaness reyndist mun umfangsmeiri og alvarlegri. Ég vonast til þess að vandi Bolungarvíkur verði leystur þegar samningi við eftirlitsnefnd lýkur á næsta ári en hægt var að minnka útsvarsálögur um helming á þessu ári, þ.e. úr 10% í 5%.

Hvað Sveitarfélagið Álftanes varðar komst eftirlitsnefnd að þeirri niðurstöðu þann 14. desember sl. eftir að hafa látið fara fram ítarlega rannsókn á fjármálum þess að sveitarfélagið væri komið í greiðsluþrot, skuldir og skuldbindingar utan efnahags væru um 7,2–7,4 milljarðar kr. og sveitarstjórn væri ómögulegt án verulegrar utanaðkomandi aðstoðar að koma fjármálum sveitarfélagsins á réttan kjöl. Nefndin lagði því til með vísan til 2. mgr. 76. gr. sveitarstjórnarlaga að frestur yrði veittur til 20. janúar sem síðan var framlengdur til 27. janúar til að koma fjármálum sveitarfélagsins á réttan kjöl.

Áskorun þar að lútandi var kynnt með bréfi ráðuneytisins þann 17. desember 2009, auk þess sem eftirlitsnefnd og sveitarfélögin gerðu með sér samkomulag um fjárhagslegar aðgerðir á tímabilinu sem kvað á um aukningu tekna, gerð rekstraráætlunar og fyrirframgreiðslur úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga. Sveitarfélagið hafði á þessum tímapunkti ekki laust fé til að borga laun og annan nauðsynlegan rekstrarkostnað og því þurfti Jöfnunarsjóður sveitarfélaga að hlaupa undir bagga.

Virðulegi forseti. Það var mat eftirlitsnefndar að þrátt fyrir tillögu um hagræðingu í rekstri, auknar álögur, skuldbreytingu lána og niðurfellingu skuldbindinga í einhverjum mæli gæti sveitarfélagið ekki skilað hallalausum rekstri eða staðið við skuldbindingar sínar. Til að gera sveitarfélagið rekstrarhæft taldi nefndin að sveitarfélagið þyldi vart meiri skuldir og skuldbindingar en 2–2,5 milljarða kr. Með hliðsjón af þessari niðurstöðu lagði nefndin til að sveitarfélaginu yrði skipuð fjárhagsstjórn sem hafði forustu um endurskipulagningu fjármála sveitarfélagsins og leitaði allra tiltækra leiða til lausnar á vandanum. Við í ráðuneytinu fórum vel yfir þessar tillögur, ég fundaði bæði með minni og meiri hluta sveitarstjórnar, kynnti jafnframt tillögur fyrir samtökum sveitarfélaga og lánardrottnum og í framhaldi af því tók ég ákvörðun um skipun fjárhagsstjórnar eins og þingheimi er kunnugt um.

Það eru vissulega vonbrigði, virðulegi forseti, að grípa hafi þurft til þess neyðarúrræðis að skipa sveitarstjórn Álftaness fjárhagsstjórn en það hefur ekki verið gert síðan árið 1988. Því miður verða íbúar sveitarfélagsins fyrir barðinu á þessu ástandi, verkefnið er að leita allra leiða til að aðlaga rekstur sveitarfélagsins að þeim tekjugrundvelli sem er til staðar. Það getur ekki verið öðruvísi (Forseti hringir.) en að hægt sé að ætlast til þess að aðrir greiði fyrir þá þjónustu.

Virðulegi forseti. Í seinni ræðu minni fer ég yfir það sem hv. þingmaður spurði um, þ.e. hvað þessar álögur muni standa lengi, (Forseti hringir.) en það er auðvitað það versta í öllu því sem hér hefur komið fram.