138. löggjafarþing — 78. fundur,  22. feb. 2010.

gjaldþrotaskipti o.fl.

197. mál
[17:52]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil aftur brýna hv. nefnd sem fær þetta til meðhöndlunar að vinna hratt en líka mjög vandlega og alveg sérstaklega í þessum þætti þar sem menn telja að ákveðinn samningur eða gerningur sé samkvæmt lögum orðinn fastur, þ.e. að honum verði ekki rift. Einhver getur hafa keypt þann gerning eftir á, gæti hafa keypt hann í gær af því að fresturinn var runninn út og hann vissi að nú væri þetta orðið fast þannig að nefndin þarf að skoða þetta sérstaklega. Ég vil ekki að við hverfum frá hugmyndinni um réttarríkið jafnvel þótt vandinn sé mikill. Við megum ekki gera það og því miður var þetta frumvarp ekki samþykkt strax og það kom fram í fyrsta skipti. Þá hefði þetta verið miklu léttara. Ég held að menn þurfi að vinna mjög hratt í þessu, þannig að þeir frestir sem eru að líða núna séu þá innan marka þeirra laga sem við setjum.