138. löggjafarþing — 80. fundur,  24. feb. 2010.

störf þingsins.

[13:43]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Mig langar til að beina fyrirspurn að hv. formanni viðskiptanefndar, Lilju Mósesdóttur. Það liggur fyrir að vandi heimilanna eykst dag frá degi og samkvæmt nýlegri skýrslu Neytendasamtakanna eru um 30% heimila landsins þegar komin í eða eru að komast í mjög þrönga fjárhagsstöðu og heimilum í vanda fjölgar stöðugt. Samkvæmt upplýsingum frá Hagsmunasamtökum heimilanna kom í ljós á fundi á hinni svokölluðu velferðarvakt fjármálaráðuneytisins að engin vinna er unnin hjá Seðlabanka Íslands til að endurmeta fjárhagslega stöðu heimilanna í landinu. Þar kom einnig fram að engin slík vinna væri unnin í félagsmálaráðuneytinu, hvað þá í viðskiptaráðuneytinu. Ég hefði talið mjög brýnt að hefja þá vinnu nú þegar og er hreint með ólíkindum að sú vinna skuli ekki hafa verið sett af stað fyrir löngu síðan.

Það sem ég furða mig samt á er að þeir aðilar eru að vinna með skýrslu eða samantekt sem Seðlabankinn kynnti í mars og júní í fyrra en sú skýrsla var unnin að beiðni samtaka fjármálafyrirtækja, eftir því sem ég best fæ skilið. Nú spyr ég hv. þingmann: Getur verið að það sé alls engin vinna í ráðuneytunum við að fara yfir þessa slæmu stöðu? Getur verið að Seðlabankinn sé að vinna fyrir samtök fjármálafyrirtækja, væntanlega þá til að meta skuldasafnið, þ.e. varðandi hvað má afskrifa og hvernig þeir bera (Forseti hringir.) sem mest úr býtum? Er ekki kominn tími til að við snúum okkur að fjölskyldunum í landinu, ungu barnafólki og þeim sem eru skuldum vafnir?