138. löggjafarþing — 80. fundur,  24. feb. 2010.

vopnaleit á Keflavíkurflugvelli.

221. mál
[14:44]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Hv. 7. þm. Suðurk. hefur beint til mín þremur spurningum sem mér er ljúft og skylt að svara.

1. Hvaða einstaklingar, innlendir og erlendir, eru undanþegnir vopnaleit á flugvöllunum í Keflavík, Reykjavík, á Akureyri og Egilsstöðum? Um flugvernd á Íslandi gildir reglugerð um flugvernd nr. 361/2005 en með henni eru innleiddar Evrópureglugerðir á sviðinu. Reglugerðin tekur til flugverndar á öllum millilandaflugvöllum á Íslandi. Kröfum umræddrar reglugerðar, Evrópureglugerðar og viðauka 17 við Chicago-sáttmálann um flugvernd er nánar lýst í flugverndaráætlun Íslands sem Flugmálastjórn Íslands gefur út. Allir sem erindi eiga inn á haftasvæði flugverndar skulu geta sýnt fram á að þeir hafi lögmætt erindi inn á haftasvæðið, þ.e. með brottfararspjaldi, aðgangsheimild flugvallar o.s.frv. en auk þess þurfa þeir, ásamt því sem þeir bera með sér, að undirgangast skimun.

Í flugverndaráætlun Íslands hefur Flugmálastjórn Íslands skilgreint þrjá hópa sem undanþegnir eru skimun en það eru lögreglumenn, starfsmenn tollgæslu og starfsmenn Landhelgisgæslu sem starfsins vegna bera vopn að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Skilyrðin eru þau að viðeigandi embætti sendir lista yfir þá starfsmenn sem eru vopnaðir við störf á Keflavíkurflugvelli og að aðgangsheimildir þeirra inn á flugvöllinn gefi til kynna að um vopnaða starfsmenn sé að ræða til að forðast óþægindi í vopnaleit. Erlendir þjóðhöfðingjar og aðrir háttsettir embættismenn sem ferðast í opinberum erindagjörðum hafa verið undanþegnir vopnaleit.

2. Hvaða rök eru fyrir þeim undanþágum í hverju tilviki fyrir sig? Það hefur ekki þótt viðeigandi að vopnað fólk leggi frá sér vopn sín innan um aðra til að undirgangast skimun. Þar sem starfsmönnum þeirra þriggja embætta sem tilgreind eru í svari við fyrstu spurningu er treystandi til að bera vopn hefur Flugmálastjórn Íslands litið svo á að þeim sé einnig treystandi til að fara inn á haftasvæði flugverndar án skimunar á meðan þeir eru við störf. Undanþága til handa erlendum þjóðhöfðingjum og öðrum opinberum starfsmönnum hefur verið gefin út á prótokollsskrifstofu utanríkisráðuneytisins enda eru viðkomandi í opinberum erindagjörðum og ávallt fylgt út í loftfar af lögreglu. Undanþágan er bæði veitt í virðingarskyni við hina erlendu gesti en einnig vegna þess að þeir ferðast iðulega með sína eigin lífverði sem oft bera vopn og vopnaleit hefur því takmarkað vægi en þessir aðilar ferðast alltaf út í loftfar í fylgd lögreglu. Það hefur verið viðtekin vinnuregla að forseti Íslands, forsætisráðherra og makar þeirra hafa verið undanþegnir vopnaleit í virðingarskyni enda séu þeir í fylgd lögreglu eða öryggisstarfsemi flugvallarins út að loftfari.

3. Hver eru viðbrögð vopnaleitarmanna ef einstaklingur, sem ekki hefur undanþágu frá vopnaleit, neitar að gangast undir vopnaleit? Í 30. gr. reglugerðar nr. 361/2005, um flugvernd, segir, með leyfi forseta:

„Sérhverjum aðila sem neitar að undirgangast leit í samræmi við þessar reglur eða neitar að láta skoða handfarangur sinn skal synjað um að fara inn á haftasvæði flugverndar og í loftfar.“

Unnið er í samræmi við þetta ákvæði, virðulegi forseti.