138. löggjafarþing — 80. fundur,  24. feb. 2010.

útboð Vegagerðarinnar.

237. mál
[15:05]
Horfa

Jónína Rós Guðmundsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka þá góðu umræðu sem hér hefur skapast um kannski tvíþætt mál, annars vegar það að atvinnustigi sé haldið uppi um allt land og þeir mikilvægu vinnuveitendur sem verktakar eru hafi þau verkefni sem til þarf. Mér finnst líka skipta mjög miklu máli að við ræðum af skynsemi og fullri samstöðu um það að mannfjöldinn skiptir ekki alltaf máli, við eigum í raun og veru að hafa þau byggðasjónarmið uppi að allir Íslendingar á öllu Íslandi hafi ákveðna grunnþjónustu, sem er það að geta ekið um á mannsæmandi vegum að minnsta kosti, þótt við verðum síðan að sjálfsögðu að taka líka tillit til fjölförnustu leiðanna og hafa þar umferðaröryggi af bestu sort. En ég endurtek að ég þakka þessa umræðu og minni á að við sýnum fulla samstöðu í þessu máli.