138. löggjafarþing — 81. fundur,  25. feb. 2010.

skuldir heimilanna.

[10:39]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Ég beini fyrirspurn til hæstv. heilbrigðisráðherra um vanda heimilanna. Hún hefur látið sig málið varða á Alþingi og ég veit að hún hefur skoðanir á þessum málaflokki og beini í rauninni þeim tilmælum til hennar að hún beiti sér innan ríkisstjórnarinnar til að einhverjar aðgerðir verði settar af stað.

Ég spurði hv. þm. Lilju Mósesdóttur, formann viðskiptanefndar, í gær út í þá staðreynd að í nýlegri skýrslu Neytendasamtakanna eru um 30% heimila landsins þegar komin í eða eru að komast í mjög þrönga fjárhagsstöðu. Heimilum í vanda fjölgar stöðugt. Nú er það líka þannig að vandi heimilanna er samofinn vanda fyrirtækjanna og við vitum að mörg þeirra eru mjög illa stödd. Af því leiðir að hér verður meira atvinnuleysi, en með auknu atvinnuleysi aukast félagsleg vandamál og maður hefur það á tilfinningunni að álag á heilbrigðisþjónustu geti af þessum völdum orðið mun meira en þegar er.

Það sló mig svolítið að komast að því að engin vinna er unnin í félagsmálaráðuneytinu eða viðskiptaráðuneytinu til að endurmeta fjárhagslega stöðu heimilanna í landinu. Mig langaði til að beina þeirri spurningu til hæstv. heilbrigðisráðherra hvort það sé ekki tímabært og hvort einhver vinna hafi verið unnin í úttekt á því hvort þessum vanda muni fylgja aukinn kostnaður í heilbrigðisþjónustu með auknu álagi.