138. löggjafarþing — 81. fundur,  25. feb. 2010.

skuldir heimilanna.

[10:41]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Álfheiður Ingadóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Höskuldi Þór Þórhallssyni fyrir spurninguna. Ég tek undir með honum að það er tímabært að ljúka úttekt á vanda og skuldastöðu heimilanna og ég tek undir með þeim sem kalla sérstaklega eftir aðgerðum fyrir þau heimili sem verst eru stödd og þá á ég við þau sem minnstar hafa tekjurnar. Þau höfðu það líka kannski fyrir hrun. Það er eins og að úrbætur hafi heldur gagnast þeim sem höfðu meira undir í aðdraganda kreppunnar en þeim sem verr voru staddir. Það tel ég að þurfi að skoða sérstaklega.

Það er rétt að kreppa hefur margháttuð áhrif á heilsufar, félagslega líðan og stöðu manna. Þetta eru þó tvíþætt áhrif. Það verður að segjast eins og er og viðurkennast að í kreppu hægir á samfélaginu og það þýðir í raun betri heilsu. Það sýna allar tölur. Þetta eru þekktar tölur úr kreppum frá öðrum löndum. Þetta sýnir sig m.a. í lægri slysatíðni og minni heildarkostnaði við heilbrigðisþjónustuna. Hins vegar eru nokkuð margir þættir sem þarf að fylgjast sérstaklega með og það er þá einkanlega líðan barna sem ég tel að þurfi að vakta sérstaklega. Við höfum gert og erum að gera ráðstafanir á vegum heilbrigðisyfirvalda til að styrkja aðstoð við börn í skólakerfinu með því að styrkja skólahjúkrunarfræðinga. Landlæknir er að gera úttekt á því hvernig framhaldsskólarnir framfylgja lögum um heilsugæsluþjónustu í framhaldsskólunum. Þetta er verðugt umræðuefni og margt sem mig langar til að nefna í þessari umræðu en tími minn núna er því miður búinn.