138. löggjafarþing — 81. fundur,  25. feb. 2010.

nauðungarsala.

389. mál
[12:07]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Frú forseti. Við erum að ræða hér enn á ný frestun á nauðungarsölu fasteigna fram yfir 31. október 2009. Ég er ekki komin hérna upp til þess að mótmæla því að gripið verði til þeirra lágmarksaðgerða að fresta nauðungarsölum. Ég verð hins vegar að viðurkenna að ég tel að þetta sé enn á ný dæmi um það að ríkisstjórnin er að fresta málum og engar lausnir eru uppi á borðinu. Þegar maður horfir á það í þeirri einu þverpólitísku nefnd sem er starfandi og er að fara yfir lög um greiðslujöfnun sem hæstv. félagsmálaráðherra lagði fram á sínum tíma og menn töldu nú að væri ögn skárra að samþykkja en að gera ekki neitt, að núna er það komið fram, bæði frá þeim hópi og í ályktunum frá Alþýðusambandinu, að við erum að fresta. En hvað svo? Ætlum við að halda áfram að fresta hlutunum út í hið óendanlega? Hæstv. dómsmálaráðherra sagði þegar hún flutti þetta mál við 1. umr. að vinna væri í gangi og vonast væri til þess að nefndin mundi skila af sér eftir tvær til þrjár vikur.

Þessi ríkisstjórn er búin að sitja í ráðuneytunum frá því í febrúar 2009 og þá var alveg ljóst við hvers konar vanda við værum að fást. Framsóknarmenn, eins og hv. þm. Birkir Jón Jónsson fór mjög vel í gegnum á undan mér, hafa margítrekað bent á hvers konar vandamál við erum að fást við og að þau úrræði, þau fáu úrræði sem hafa komið frá ríkisstjórninni hafa ekki tekið á þessum vanda. Meðal annars hefur þverpólitískur hópur, sem hefur verið að starfa, bent á að ástæðan fyrir því að verið er að flýta hlutunum núna er náttúrlega sú að fresturinn rennur út í lok mánaðarins. En síðan veit enginn hvað tekur við. Það á að lengja frestinn og fólk getur náttúrlega valið um það hvort það vilji láta bjóða sig upp eða ekki. En ef það gerir það, og eins og kemur fram í ályktunum frá ASÍ, þá er það þannig að þegar fólk segir kannski: Gott og vel, ég gefst upp, við skulum bara láta eignirnar fara — og í ljós kemur að þær standa ekki undir skuldunum, þá stendur samkvæmt lögum nr. 21/1991: „Þrotamaðurinn ber ábyrgð á skuldum sínum sem fást ekki greiddar við gjaldþrotaskiptin.“

Miðað við lög um slit fyrningar er hægt að hundelta fólk svo lengi sem það lifir og gott betur. Kröfuhafar geta gert kröfu í dánarbú viðkomandi þrotamanns ef þeim svo sýnist. ASÍ er núna að krefjast að við gjaldþrot falli niður ábyrgð á öllum skuldum heimila sem eru umfram eignir. Punktur. Að við gefum fólki tækifæri til að byrja upp á nýtt þegar það hefur tapað öllum sínum eigum, að fólk fái tækifæri til að byrja nýtt líf. ASÍ er að krefjast lagasetningar strax gegn okri og harðræði rukkara.

Ég er hér með endurrit úr gerðabók þar sem skuldari var kallaður fyrir. Þetta er einn af þeim sem eru að höfða mál núna og hefur fengið dómsniðurstöðu fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur varðandi erlend lán. Hann var kallaður fyrir hjá sýslumanni og var beðinn um að benda á eignir sem gætu komið upp í þessar kröfur — hér stendur að höfuðstóllinn sé rúmar 2 milljónir — og hann bendir á bifreið sem metin er af fulltrúa sýslumanns fyrir 400 þús. kr. enda hvílir ekkert á bifreiðinni. Síðan bendir hann á fasteignina sína. Samkvæmt fasteignamati er viðkomandi eign metin á 27 milljónir, en fulltrúi sýslumanns segir að hann sé ekki tilbúinn að meta þá eign á meira en 20 milljónir vegna þess að reynsla hans segi núna að eignir fari á allt að því 25–30% minna en fasteignamatið er. En á sama tíma erum við í gegnum greiðslujöfnunina og í gegnum þau úrræði sem bankarnir eru að bjóða, að fara fram á það að fólk samþykki 110% að lágmarki af fasteignamati þegar sýslumenn, fulltrúar hins opinbera, eru að segja að fasteignamatið sé einskis virði. Þetta stendur hérna bókað í gerðabók. Ég skal sýna hverjum sem er þetta skjal, ég hef fengið leyfi fyrir því að það sé í lagi að skoða það.

Ég hefði náttúrlega gjarnan viljað sjá það að Alþýðusamband Íslands, sem eiga nú að vera fulltrúar almennra launþega í landinu, hefði brugðist fyrr við. En þau í sambandinu eru alla vega búin að bregðast við. Þau hafa lagt fram kröfugerð. Þau eru búin að leggja fram tillögur við ríkisstjórnina um það hvernig mögulegt sé að takast á við þann gífurlega vanda sem við erum að fást við. Þau eru búin að leggja fram tillögu að lagafrumvarpi hvernig á nákvæmlega að breyta lögum um greiðsluaðlögun. Það lagafrumvarp er, eftir að hafa rennt í gegnum það, mjög sviplíkt frumvarpi sem við framsóknarmenn lögðum fram um greiðsluaðlögun nánast á sama tíma, rétt á undan því að frumvarp ríkisstjórnar kom fram um greiðsluaðlögun. Þau leggja til að í staðinn fyrir að þetta fari í gegnum sjálfstætt starfandi lögmenn verði það sýslumenn sem taki að sér að vera umsjónarmenn eða tilsjónarmenn fyrir skuldara. Þau tala um að það sé eðlilegt að ríkið fjármagni og reki skilanefndir heimilanna. Og að aðstoð við greiðsluaðlögun verði endurgjaldslaus og á ábyrgð hins opinbera og benda á að milljörðum hefur verið varið til skilanefnda bankanna. Heimili landsmanna eru í sömu stöðu og bankarnir hvað það varðar að lágmarka tjón þeirra og hámarka eignir. En svo horfum við á dæmi eins og það sem hér er bókað í gerðabók.

Annað sem ASÍ bendir á er að allan ágreining við kröfuhafa um uppboðskröfu megi bera upp við sýslumann fyrir uppboð en ekki bara eftir á. Það var þannig að þessi einstaklingur benti á að verið væri að gera kröfu á hann á grundvelli lánasamnings sem væri nánast samhljóða og dómur Héraðsdóms Reykjavíkur benti á að væri ólöglegur, það er að vísu annar dómur, sumir hafa sagt að hann sé löglegur, en það liggur fyrir dómur. Það er réttaróvissa í þessu máli. Það eina, eftir margítrekaða beiðni, sem hann fékk bókað um er það að gerðarþoli verður ekki við áskorun um að greiða kröfuna, en bendir á að um sé að ræða lán í erlendri mynt. Það var eina athugasemdin, eina bókunin sem hann fékk að koma að í gerðabókinni þrátt fyrir að maður mundi telja að meira að segja fulltrúar sýslumanns ættu að hafa haft tíma til þess að lesa blöðin og sjá það að orðin væri réttaróvissa um þetta mál.

Þegar við vorum að ræða þetta mál við 2. umr. sama dag talaði ég fyrir þverpólitísku máli, þar sem voru fulltrúar allra stjórnmálaflokka, þess efnis að möguleiki væri að óska eftir flýtimeðferð fyrir akkúrat þessum málum fyrir Hæstarétti til að fá niðurstöðu í þessa réttaróvissu. Í því máli er líka bráðabirgðaákvæði um að sýslumönnum verði skylt að fresta uppboðum, fresta aðgerðum sem varða þessa tegund af lánasamningum. Við reyndum meira að segja að orða það þröngt að takmarka þetta. Mér hefur skilist að ekkert sé til fyrirstöðu hjá dómsmálaráðuneytinu um að grípa til þess konar aðgerða ef Alþingi svo kýs. Mér skilst meira að segja að komið hafi fram beiðni fyrir allsherjarnefnd þegar var verið að ræða þetta mál um það hvort hægt væri að taka þessi mál saman út úr nefndinni, hvort hægt væri að ræða þetta sameiginlega, hvort einhver möguleiki væri á því, en ekki var fallist á þá beiðni.

Ég vona svo sannarlega að menn ætli sér að vinna þetta hratt. Ég vonaðist til þess að allsherjarnefnd mundi t.d. taka ákvörðun um að leggja fram breytingu á þessu frumvarpi sem mundi alla vega taka á frestun á nauðungarsölu á lánum, eða á grundvelli lána eða kaupleigusamninga sem er réttaróvissa um, vegna þess að þetta dekkar það ekki. Það nær ekki yfir þetta. Hérna erum við fyrst og fremst að tala um heimili fólks, fólk sem er með lögheimili. Eins og maður sér í þessari gerðabók er verið að ganga að öðrum eignum.

Það sem meira er, þeir sem eru að reyna að leita réttar síns vegna þessara erlendu lána og lenda, eins og í þessu dæmi, í árangurslausu fjárnámi getur verið næsta skref hjá viðkomandi fyrirtæki sem sækir þessa kröfu að óska eftir gjaldþrotaskiptum á viðkomandi og þá skilst mér að það stöðvi málið. Sá sem er að sækja málið fyrir Hæstarétti verður að ráða yfir sínu búi. Það eru lögfræðimenntaðir einstaklingar hérna og væri því gott að fá leiðréttingu á þessu ef þetta er einhver misskilningur hjá mér, en þetta var fullyrt við mig fyrr í dag. Það getur kannski bara verið orðin ákveðin taktík hjá fjármögnunarfyrirtækjunum að halda áfram innheimtuaðgerðum til að tryggja það að fólk sé ekki í neinni aðstöðu til þess að sækja rétt sinn.

Ég hefði aldrei trúað því að það þegar maður væri kominn inn á Alþingi og við værum búin að ná ákveðinni þverpólitískri sátt og við værum öll sammála um að þingið þyrfti að gera eitthvað meira fyrir heimilin í landinu, að við værum samt svona vanmáttug, að maður stæði í ræðustól Alþingis og upplifði sig sem vanmáttugan, eins og maður geti ekki gert neitt meira. Við erum búin að reyna að tala fyrir málum og höfum fengið stuðning við það.

Ég veit að við alþingismenn getum unnið hratt. Þetta er dæmi um mál sem við ætlum okkur að vinna hratt, við erum að reyna að stefna að því að klára málið í dag. Við höfum margítrekað sýnt það. Það sama hlýtur að geta gilt um það að við erum komin með tillögur frá Alþýðusambandi Íslands, mjög nákvæmar tillögur, ég get að vísu sagt það að við framsóknarmenn mundum gjarnan vilja ganga lengra. Við höfum lagt fram tillögur um heildstæða lánaleiðréttingu, en það væri skref í rétta átt að tryggja betur rétt þeirra sem skulda á Íslandi.

Hæstv. félags- og tryggingamálaráðherra hefur haldið þó nokkuð margar ræður um það að honum finnist réttindi skuldara á Íslandi ekki vera nægileg. Maður hefur lesið pistla eftir stjórnarþingmenn þar sem þeir tala um hvað þeir hafi miklar áhyggjur af þessu. En eru það ekki alþingismenn, við sem sitjum hér og vorum kjörin af þjóðinni, sem hafa vald til að breyta þessu? Sérstaklega finnst mér það einkennilegt að heyra frá þeim sem styðja núverandi ríkisstjórn, sem styðja þennan meiri hluta, tala um hversu vanmáttugir þeir eru, eins og þeir geti ekki gert neitt. En þeir eru samt að stjórna landinu. Þetta er voldugasta stofnun landsins, Alþingi. Við getum gert meira. Það eru mikil verkefni fram undan hjá allsherjarnefnd, ég vil því hvetja þingmenn til dáða.