138. löggjafarþing — 82. fundur,  25. feb. 2010.

lokafjárlög 2008.

391. mál
[14:42]
Horfa

Ólöf Nordal (S):

Virðulegi forseti. Það er verkefni okkar núna í hv. fjárlaganefnd að taka til umfjöllunar fjárlög fyrir árið 2008. Er óhætt að segja að það ár, eins og hæstv. fjármálaráðherra nefndi, verður okkur minnisstætt um langan tíma. Mig langaði af þessu tilefni að nefna það að þegar fjárlagagerðin frá árinu 2008 hófst var töluvert öðruvísi um að litast á Íslandi og fjárlagagerðin, eða þær áætlanir sem þar voru uppi, voru töluvert á útgjaldahliðinni þegar tekin var við ný stjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar. (BJJ: Heldur betur, 20%) Um það þurfum við ekkert að deila, það eru staðreyndir. En niðurstaða ársins varð hins vegar með allt öðrum hætti eftir hið afdrifaríka hrun bankakerfisins og það sem við höfum verið að glíma við upp frá því.

Fjárlaganefnd mun taka þetta mál til skoðunar og athugunar. Það er í sjálfu sér ekkert betra um þetta að segja á þessu stigi málsins. Einhverjar smávægilegar breytingar hygg ég að hafi verið gerðar fyrir lokaafgreiðslu fjárlaga fyrir 2008. Fjárlaganefnd mun taka það til skoðunar og gera grein fyrir því í 2. umr.