138. löggjafarþing — 82. fundur,  25. feb. 2010.

Stjórnarráð Íslands.

375. mál
[14:56]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir ágæta ræðu og það frumvarp sem hér liggur fyrir. Það er mjög til bóta að setja skarpari reglur um góða siði og gott siðferði. En mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra um atriði sem ég hef svo sem spurt um áður og það eru t.d. vildarpunktar flugfélaga þar sem atvinnurekandi greiðir hærra fargjald en launþeginn nýtur vildarpunktanna og fer í ferðalag með fjölskyldu sinni fyrir lítinn pening eða minni pening. Mér skilst að þetta sé ekki einu sinni skattlagt. Er hugsað til þess að taka á þessum alþjóðlega vanda í þessum siðareglum?

Þá er það spurning um dagpeninga sem oft og tíðum eru mjög rausnarlegir og ég hef líka nefnt áður að dagpeningar alþingismanna eru 80% en hótelið er greitt. Ég kem yfirleitt með mikinn afgang úr ferðum til útlanda og ég hygg að það gildi um aðra þingmenn líka. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort inni í þessu frumvarpi sé að taka á þessum vanda.

Þá er það spurningin um skattfrelsi utanríkisþjónustunnar. Utanríkisþjónusta um allan heim nýtur skattfrelsis. Úti í heimi eru sérstakar verslanir þar sem utanríkisþjónustufólk getur keypt ódýran mat, ódýrar vörur, ódýrt bensín o.s.frv. Þetta er óskapleg uppspretta spillingar. Er meiningin að taka á þessum vanda og hvernig ætla menn að fara að því? Ég hef reynt það í mörg ár en er alltaf bent á að það sé ekki hægt vegna Vínarsamkomulagsins frá 1812. En auðvitað eru þetta ekkert annað en miklir hagsmunir fyrir utanríkisþjónustuna og ég vil spyrja um þessa þrjá þætti.