138. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2010.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 79/2008 um breytingu á IX. viðauka við EES-samninginn.

397. mál
[15:59]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Nei, mér er ekki kunnugt um að þessi kostnaðarþáttur hafi sérstaklega verið að þvælast fyrir í þessu samhengi, ég hef ekki heyrt þeim sjónarmiðum haldið til haga og kannast ekki við það. Það er alveg ljóst eins og þingmaðurinn nefnir að það kann að vera einhver kostnaðarauki vegna þessa en hann getur hins vegar líka hugsanlega skilað okkur, ef við getum á fyrstu stigum haft áhrif á það hvernig hlutirnir eru útfærðir, einhverjum sparnaði í framhaldinu. Ég tel því að þarna geti hlutirnir vegist á og þess vegna þurfi ekki að hafa sérstakar áhyggjur af því í þessu efni af því að ég held heldur ekki að um stórvægilegar fjárhæðir sé að ræða hvað þetta varðar.

Síðan nefndi þingmaðurinn líka hugmyndir um aukið samstarf beinlínis við Evrópuþingið, flokkahópana og annað slíkt. Það eru hugmyndir sem einnig voru sérstaklega reifaðar í skýrslu Evrópunefndar sem skilaði af sér á vormánuðum 2007, ef ég man rétt, undir forustu þáverandi hæstv. dómsmálaráðherra Björns Bjarnasonar. Þá voru mjög ítarlegar tillögur einmitt um þetta sem ég er í öllum meginatriðum sammála. Ég tel mikilvægt að við styrkjum samstarf okkar við þingmenn á Evrópuþinginu, bæði við einstakar fagnefndir sem fjalla um mál sem geta varðað okkur og eiga eftir að fara inn í EES-samninginn og eins við flokkahópana. Ég tek undir það með þingmanninum og tel að við eigum að gera okkar besta til að styrkja slík tengsl. Á þessum tímum þegar við horfumst í augu við niðurskurð á mörgum sviðum í hinum opinbera rekstri eru tengsl af þessum toga mikilvæg og geta skilað okkur ávinningi og árangri til framtíðar.