138. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2010.

tekjuskattur.

403. mál
[16:26]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Nei, aldrei slíku vant er ekki við okkur hér á þinginu að sakast. En það sem ég vakti athygli á með ræðu minni áðan var að með öllum þeim skattbreytingum sem farið var út í fyrir jólin komu meira að segja umsagnir frá skattkerfinu sjálfu, því fólki sem vinnur innan skattkerfisins, á þá leið að erfitt væri að fara út í svo flóknar breytingar svo stuttu fyrir áramót þar sem það þyrfti að breyta kerfum og öðru. Þess vegna hlýtur eitthvað undan að láta í allri framkvæmdinni við að koma lögum frá Alþingi til framkvæmda í kerfinu og þarna urðu þessi birtingarmistök. Þrátt fyrir að mistökin sjálf hafi ekki verið gerð hér á Alþingi er rót þeirra að finna í þeim vinnubrögðum sem hér voru viðhöfð fyrir jólin og jú, jú, það hafa verið gerð endalaus mistök á sl. 18 eða 27 árum, ég get alveg tekið undir það. En maður réttlætir ekki eina vitleysu með annarri heldur er miklu betra að einsetja sér að gera hlutina vel og gera hlutina rétt og ekki benda á fortíðina heldur horfa til framtíðar.