138. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2010.

lækkun rafmagnskostnaðar garðyrkjubænda.

193. mál
[17:35]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr):

Frú forseti. Ég styð þessa tillögu sem við ræðum hér af heilum hug og vona svo sannarlega að hún nái fram að ganga sem fyrst.

Við búum á Íslandi, Ísland er eyja og það kostar mikið að flytja hingað matvæli og þess vegna eigum við að reyna að framleiða sem mest að þeim sjálf. Auk þess er íslenskt grænmeti með því besta í heimi og það þekkja það allir sem hafa slysast til að kaupa innflutta tómata að það eru mistök sem maður gerir bara einu sinni.

Það er svo undarlegt með þennan markað að því meira sem er framleitt og því meira sem er í boði af íslensku grænmeti, því meira kaupa íslenskir neytendur og því meiri er salan. Þetta er því ekki síður lýðheilsumál sem við flytjum hér því að ótal rannsóknir sýna að aukin neysla á grænmeti hefur mjög jákvæð áhrif á heilsuna og hindrar jafnvel framgang ýmissa sjúkdóma. Því ber okkur sem þjóðfélagi skylda til að tryggja að hér sé ræktað grænmeti allt árið. Það er í þágu alls þjóðfélagsins að raforka til ylræktarbænda sé á temmilegu verði og þetta er iðnaður sem skapar auk þess ótal störf. Ég styð þetta mál því heils hugar.