138. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2010.

mótun efnahagsáætlunar sem tryggir velferð og stöðugleika án aðstoðar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

287. mál
[17:56]
Horfa

Flm. (Birgitta Jónsdóttir) (Hr) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Þetta hefur einmitt verið mikil ráðgáta í íslensku samfélagi af hverju í ósköpunum stýrivextirnir eru svona háir. Ef ég man rétt var það einmitt eitt af því sem olli svo miklum vandræðum þegar sjóðurinn var í Asíu, það voru hinir háu stýrivextir. Þetta er víst kallað klassískt AGS-verkfæri að halda stýrivöxtunum svona háum og það er svolítið merkilegt þegar maður lítur til landa eins og Bandaríkjanna þar sem stýrivextir eru nánast í núlli og hér eru þeir enn þá í 9%.

Ég held að það sé gríðarlega mikilvægt að við horfumst í augu við í hvaða prógrammi við erum. Við erum í prógrammi hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og því fylgir allt sem því prógrammi fylgir, eins og ég ræddi um áðan. Eitt af þeim verkfærum sem þeir hafa er einmitt háir stýrivextir. Það er svolítið sorglegt til þess að hugsa að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn var nánast orðinn úreltur áður en við endurreistum hann með ákalli okkar um hjálp frá honum. Það eru náttúrlega önnur lönd að fara mjög illa út úr veru sjóðsins, m.a. Lettland, þannig að ég held að það sé gríðarlega mikilvægt að við þingmenn gerum allt sem við getum til að hvetja hæstv. fjármálaráðherra til að fara út í það að skoða aðrar leiðir og ég veit til þess að sérfræðingar, eins og t.d. Joseph Stiglitz, hafa boðist til að koma okkur til aðstoðar. Ég held að það sé gríðarlega mikilvægt að við þiggjum slíka aðstoð af því að þrátt fyrir allt erum við að glíma við svo rosalega stór mál að ég held, þótt við séum nokkuð klár, að betur sjái augu en auga.