138. löggjafarþing — 84. fundur,  2. mars 2010.

hlutafélög og einkahlutafélög.

71. mál
[14:35]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Ragnheiði Elínu Árnadóttur fyrir þær ábendingar sem hún kom með um stjórnir og nefndir á vegum hins opinbera. Ég vona svo sannarlega að við öll sem sitjum hérna í þingsal og erum að hlusta á þessa umræðu höfum verið að punkta hjá okkur því að þetta er nokkuð sem við þurfum þá að fara í að lagfæra.

Hins vegar verð ég að segja að mér finnst töluvert áhyggjuefni að þingmaðurinn virðist enn þá vera fastur í gamalli og gamaldags hugmyndafræði, m.a. Viðskiptaráðs Íslands. Á vefsíðu þess má lesa ýmsar tillögur um að atvinnulífið ætti bara að ráða sér sjálft og það ætti ekki að setja nein lög til að koma einhverju skikki á það. Við sáum árangurinn af því við efnahagshrunið hérna 2008 og það sem við erum að fást við núna.

Ég vildi jafnframt benda þingmanninum á að í því frumvarpi sem við samþykkjum vonandi fljótlega er talað um að ef stofnendur, stjórnendur, framkvæmdastjórar, endurskoðendur, skoðunarmenn o.s.frv. sinna ekki skyldum sínum samkvæmt lögum þessum (Forseti hringir.) er hægt að leggja á þá dagsektir. Hlutafélagaskráin sér þá um það þannig (Forseti hringir.) að það eru viðurlög við brotum á þessari löggjöf.