138. löggjafarþing — 84. fundur,  2. mars 2010.

hlutafélög og einkahlutafélög.

71. mál
[15:58]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég verð að segja að ræða hv. þm. Ragnheiðar Ríkharðsdóttur, þingmannsins sem stóð hérna í ræðustóli í miðju hruninu og talaði um að hún væri ekki sátt við að vera eins og einhver afgreiðslukona á kassa, kemur mér á óvart. Hún talar núna um að við dirfumst að læða inn einhverjum breytingum við lagafrumvörpum frá ráðherra. Ég veit ekki betur en að Alþingi Íslendinga fari með löggjafarvaldið þannig að þó að ráðherra komi hingað með einhver frumvörp er ekki þar með sagt að við getum ekki gert breytingar á þeim málum. Ég hélt að það væri einmitt það sem hv. þingmaður berðist fyrir, að við gætum gert breytingar, ekki bara það að við værum að laga orðalag heldur að við gerðum efnislegar breytingar á frumvörpum ef okkur þætti ástæða til.

Það eru mikil vonbrigði að hlusta á þessa ræðu hjá hv. þingmanni og sjá hana bakka frá þeirri frábæru ræðu þegar hún talaði um að hún væri ekki sátt við þau vinnubrögð sem hefðu verið á Alþingi (Forseti hringir.) í fjöldamörg ár.