138. löggjafarþing — 84. fundur,  2. mars 2010.

hlutafélög og einkahlutafélög.

71. mál
[17:00]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Það er gott að heyra að hv. þingmaður er fylgjandi fæðingarorlofslögunum. Þar eru ákveðin lágmörk á milli kynjanna, rétt eins og við erum að tala um lágmörk hér líka almennt í atvinnuþátttöku. Mér þykir hv. þingmaður fara ansi langt út á þetta hála svell þegar hann lýsir afrekum einkaframkvæmdarinnar þegar kemur að jafnréttismálum. Það sem við erum að gagnrýna hér í þessari umræðu er einmitt að hjá einkaframkvæmdinni og einkaaðilum í samfélaginu eru konur í stjórnum stærstu fyrirtækja landsins með innan við fimmtungshlut. Það er algjörlega óásættanlegt og þessu ætlum við að breyta.

Ég spyr hv. þingmann, af því að hún er mótfallin þeirri hugmyndafræði sem við ræðum hér: Er hv. þingmaður þá á móti öðrum boðum og bönnum, svo sem jafnréttislögum og fleira, vill hún hafa bara frelsið algjörlega óheft og hafa þetta eins og það er hjá atvinnulífinu í dag þar sem hlutur karla er 80% í stjórnum stærstu fyrirtækja og hlutur kvenna (Forseti hringir.) rétt innan við 20%? Það er ekki boðlegt, frú forseti.