138. löggjafarþing — 85. fundur,  3. mars 2010.

störf þingsins.

[13:33]
Horfa

Skúli Helgason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég kveð mér hljóðs í framhaldi af umræðum í þinginu í gær um atvinnumálin, sérstaklega það sem þar var sagt um orð og efndir ríkisstjórnarinnar í þeim efnum,

Kjarni málsins er sá að gripið hefur verið til fjölbreyttra úrræða í atvinnumálum sem hafa skilað þúsundum starfa nú þegar og ríkisstjórnin hefur reyndar þegar bætt um betur á þessu ári með nýjum verkefnum. Sumt hefur sannarlega gengið hægar en efni stóðu til en annað betur og við höfum í höndunum ágætt yfirlit yfir þessa stöðu. Þann 6. mars 2009 kynnti ríkisstjórnin aðgerðalista sem átti að skila rúmlega 4.100 ársverkum á næstu missirum (Gripið fram í.) auk rúmlega 2.000 ársverka í orkufrekum iðnaði. Nú, tæpu ári síðar, hafa þessar aðgerðir þegar skilað 2.400 störfum auk afleiddra starfa sem ætla má að séu vel á annað þúsund. Í byggingariðnaði hafa orðið til um 730 störf, 430 við byggingu tónlistarhúss og 300 vegna endurbóta á leiguhúsnæði fyrir stofnanir ríkisins. Síðan er ótalinn fjöldi starfa vegna hækkunar endurgreiðsluhlutfalls á virðisaukaskatti upp í 100%. Þær endurgreiðslur hafa aukist um 140 millj. kr. milli ára þrátt fyrir hrunið og hafa því a.m.k. komið í veg fyrir enn frekari samdrátt í byggingargeiranum.

Það er talið að 780 störf hafi orðið til í kvikmyndageiranum vegna hækkunar endurgreiðslu á kostnaði vegna kvikmyndagerðar, u.þ.b. 650 fleiri en áætlanir gerðu ráð fyrir. Verkefni tengd nýsköpun hafa sömuleiðis gengið vonum framar, 200 störf hafa skapast í nýsköpunarfyrirtækjum við að ráða sérfræðinga af atvinnuleysisskrá, önnur 200 í frumkvöðlasetrum, 80 í þróunarverkefni um ferðaþjónustu og stefnir í 300 í lok næsta árs sem er sexfalt meira en áætlanir gerðu ráð fyrir.

Önnur verkefni hafa gengið hægar en vonir stóðu til. Það er rétt að verkefni í orkugeiranum sérstaklega hafa ekki gengið nægilega hratt fram og munar þar mest um þau 800 störf sem Búðarhálsvirkjun átti að skila. Það veldur vonbrigðum að Landsvirkjun hefur ekki enn tekist að finna fjármagn til þeirra framkvæmda þrátt fyrir viðræður við lífeyrissjóðina í þeim efnum.

Niðurstaðan (Forseti hringir.) er að fjölmargt hefur verið gert í atvinnumálum síðasta árið og enn meira er í pípunum sem ég vonandi fæ að ræða fljótlega.