138. löggjafarþing — 85. fundur,  3. mars 2010.

reglugerð um gjafsókn.

380. mál
[15:16]
Horfa

dómsmála- og mannréttindaráðherra (Ragna Árnadóttir):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrirspurnina. Í 7. gr. reglugerðar um skilyrði gjafsóknar og starfshætti gjafsóknarnefndar er tilgreind sú fjárhæð sem leggja á til grundvallar þegar metið er hvort veita eigi gjafsókn vegna efnahags umsækjanda. Er þar miðað við að tekjuviðmið fyrir umsækjanda um gjafsóknarleyfi nemi ekki hærri fjárhæð en 1.600 þús. kr. eins og fram kemur í fyrirspurninni. Er það reyndar nokkru hærri fjárhæð en svokölluð skattleysismörk sem miðað var við áður en reglugerðin var sett en þau voru árið 2009 rúmlega 1.360 þús. kr. Ákvæði reglugerðarinnar eru nú í skoðun en ekki hefur verið tekin ákvörðun um hvort hækka eigi tekjuviðmiðin eða ekki. Hér ber að hafa í huga að þessum útgjaldalið hefur verið sniðinn enn þrengri stakkur en áður og hafa útgjöld vegna gjafsókna í raun verið umfram það sem lagt hefur verið til þessa málaflokks. Þannig var fjárheimild til málaflokksins 186,5 millj. kr. á árinu 2009 en útgjöld voru á móti 218,5 millj. kr.

Framlögin fyrir árið 2010 eru tæpar 161 millj. kr. samkvæmt fjárlögum. Hefur þannig verið gert ráð fyrir að dregið verði úr útgjöldum vegna gjafsókna á árinu og töluvert úrlausnarefni að finna út úr því hvernig það verður gert þannig að svigrúm ráðherrans er býsna takmarkað þegar til kastanna kemur. Þá er rétt að benda á að samkvæmt reglugerðinni koma fleiri atriði til skoðunar en einungis umrætt tekjuviðmið þegar gjafsóknarnefnd tekur ákvörðun um hvort veita eigi gjafsókn í málum. Í 8. gr. reglugerðarinnar er t.d. kveðið á um að veita megi einstaklingi gjafsókn þó tekjur hans séu yfir viðmiðunarmörkum ef framfærslukostnaður hans er óvenjulega hár, aflahæfi skert til frambúðar vegna varanlegrar örorku eða málskostnaður verði fyrirsjáanlega hár miðað við efnahag umsækjandans svo eitthvað sé nefnt. Þannig verður að leggja áherslu á að um er að ræða heildarmat á fjárhagsstöðu umsækjanda um gjafsókn og því segja þessi tekjuviðmið ekki alla söguna.

Hvað varðar þá spurningu hvort veita eigi atvinnulausum undanþágu frá tekjuákvæðunum er vert að rifja upp tilgang gjafsóknar eins og löggjafinn hefur ákveðið hann. Í 126. gr. laga um meðferð einkamála er tilgangur gjafsóknar að gera einstaklingi kleift að gæta hagsmuna sinna í dómsmáli ef fjárhag hans er þannig háttað að slíkt yrði honum ofviða enda sé nægilegt tilefni til málshöfðunar og málsvarnar og eðlilegt má teljast að öðru leyti að gjafsókn sé kostuð af almannafé. Eins og hv. fyrirspyrjandi kom inn á í fyrirspurn sinni voru skilyrði til gjafsóknar þrengd með lagabreytingu í ársbyrjun 2005 þannig að gjafsókn er þá aðeins veitt út frá viðmiðum um fjárhag umsækjenda. Það ber þó að undirstrika í þessu tilviki að í nokkrum tilvikum er gjafsókn lögbundin og þá hróflar tekjuviðmið ekki við þeim rétti. En ég bendi aftur á það sem ég sagði áðan um mat á því hvort skilyrðum sé fullnægt að fram fer þetta heildarmat á fjárhæð gjafsóknarbeiðandans og þá er ekki eingöngu horft til tekna viðkomandi undanfarið ár. Ef ljóst er að tekjur viðkomandi hafa lækkað til frambúðar, viðkomandi farið í nám eða orðið atvinnulaus, þá eru það atriði sem horft er til við matið. Þannig er horft til heildarmyndarinnar og tekið tillit til minnkandi tekna frá því sem verið hefur, m.a. vegna atvinnuleysis. En ég tel nauðsynlegt að skoða það, og sérstaklega í tilefni af þessari fyrirspurn, hvort nægjanlega sé tekið tillit til tekjumissis því að útkoman má ekki heldur vera þannig að hún sé beinlínis andstæð markmiðum laganna, tilgangi lagaákvæða um gjafsókn, það segir sig sjálft.

Þá er spurt hvort standi til á annan hátt að auðvelda ferlið við að sækja um gjafsókn. Það er afar fátítt að umsókn um gjafsókn komi frá einstaklingnum sjálfum og í flestum tilvikum eru það lögmenn sem undirbúa málsókn eða málsvörn sem leggja fram umsóknina. Lögmennirnir þekkja umsóknarferilinn auðvitað vel og þau gögn sem leggja þarf fram við mat á því hvort veita eigi gjafsókn. Í þessu sambandi tel ég rétt að vekja athygli á því að ég hef óskað eftir að kannað verði hvort unnt sé að koma á fót svokallaðri smámálameðferð eða sáttameðferð í málum þar sem unnt er að fá úrlausn um réttmæti ákveðinnar tegundar af kröfum þannig að ekki þyrfti að leita til dómstóla með slíkan ágreining. Slíkt verkefni mætti t.d. fela sýslumönnum. Þegar kemur að myntkörfulánum þá tel ég einmitt að stjórnvöld verði að bregðast við fyrirsjáanlegum málsóknum á því sviði og að það sé brýnt að leiða í lög ákvæði um hópmálssókn.